Raki, mygla og yfirgefin hús

Úr stigahúsi norðurhliðar A-álmu Landspítalans í Fossvogi.
Úr stigahúsi norðurhliðar A-álmu Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Eggert

Heilar álmur og byggingar standa yfirgefnar. Húsnæði, sem upphaflega var reist til bráðabirgða fyrir bráðum hálfri öld, hýsir ennþá skrifstofur starfsfólks. Rakaskemmdir, mygla og óværa. Þessar aðstæður eru vonandi ekki á mörgum vinnustöðum, en í tilfelli þess stærsta hér landi, er raunin einmitt þessi.

Það er árla morguns, á milli jóla og nýárs, sem blaðamaður og ljósmyndari mæla sér mót við Ingólf Þórisson, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landspítalans, til að skoða húsnæði spítalans.

Fara þarf yfir víðan völl, enda þekja byggingarnar samtals um 150 þúsund fermetra.

„Hér á Hringbrautarlóðinni eru það um níutíu þúsund fermetrar, þrjátíu þúsund í Fossvogi, og svo eru fjölmargar byggingar á víð og dreif því til viðbótar,“ segir Ingólfur, sem tekur á móti okkur ásamt Agli T. Jóhannssyni, umsjónarmanni Landspítala við Hringbraut.

Og strax við aðalinngang spítalans má finna tilefni heimsóknarinnar. Egill opnar þá dyr skrifstofu, til hægri inn af Kringlunni svokölluðu.

„Það sést ósköp lítið, en hér hefur raki komist inn í veggi. Þið finnið lyktina,“ segir Egill.

Skrifstofa við aðalinngang Landspítalans við Hringbraut, í Kringlunni svokölluðu, hefur …
Skrifstofa við aðalinngang Landspítalans við Hringbraut, í Kringlunni svokölluðu, hefur verið rýmd vegna myglu. mbl.is/Eggert
Rakaskemmdir í skrifstofuveggnum.
Rakaskemmdir í skrifstofuveggnum. mbl.is/Eggert

Kvörtuðu undan síþreytu

Lyfjanefnd spítalans hafði aðstöðu á skrifstofunni, áður en nefndarmenn urðu varir við mygluna. Nú hefur skrifstofan verið rýmd.

Sömu sögu er að segja af Eirbergi, sem reist var á sjötta áratugnum og hefur hýst hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Margir nemendur og starfsmenn hússins kvörtuðu undan síþreytu, ein­beit­ing­ar­leysi og stöðugum veik­ind­um, áður en það var rýmt á síðasta ári og starfsemin flutt í Ármúla.

Búist er við að viðgerð á húsinu ljúki á þessu ári.

Eirberg, autt og ljóslaust við hlið spítalans.
Eirberg, autt og ljóslaust við hlið spítalans. mbl.is/Eggert

Spítalinn sveltur um viðhaldsfé

Árið 2013 tók verkfræðistofan EFLA út viðhaldsþörf á ytri skel bygginga Landspítalans. Að hennar ráðleggingum var þá sett af stað fimm ára áætlun.

Vegna takmarkaðra fjárveitinga hefur þó ekki gefist færi til að sinna viðhaldinu eins og vonir stóðu til.

„Við höfum fengið 300 milljónir króna á ári síðustu ár í viðhald ytra byrðis húsanna,“ segir Ingólfur en bendir á að meira þurfi til.

Þrjú hundruð milljónir virðast þannig duga skammt, þegar 150 þúsund fermetrar af byggingum eru annars vegar. Mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf er til staðar, mest í Fossvogi, á Hringbraut og í Landakoti, og segir Ingólfur að spítalinn hafi í raun verið sveltur um viðhaldsfé.

„Byggingarnar eru flestar komnar til ára sinna, nokkurra áratuga gamlar, og lítið um nýtt húsnæði,“ segir Ingólfur.

„Þetta er ekki eins og skrifstofuhúsnæði, þar sem unnið er …
„Þetta er ekki eins og skrifstofuhúsnæði, þar sem unnið er frá níu til fimm.“ mbl.is/Eggert

Nýtt hús nánast ónothæft

Á nýliðnu ári var fjármagnið nýtt í stórt verkefni við Landakotsspítala, þar sem skipt hefur verið um gler og glugga auk þess sem suður- og austurhlið L-álmu voru steinaðar að nýju. Húsnæði eldhúss og geðdeildar á Hringbraut voru þá einnig lagfærð að utanverðu.

„Við höfum sömuleiðis þurft að ráðast í stórar aðgerðir í nýju húsi, barna- og unglingageðdeildar, sem er svolítið sérstakt,“ segir hann og bætir við að húsið hafi einfaldlega verið illa byggt.

Áður hefur mbl.is greint frá því að þjónusta deildarinnar hafi verið skert af þessum sökum.

Frétt mbl.is: Skerðing á þjónustu BUGL vegna myglu

Segir Ingólfur að spítalinn leitist nú eftir því að fá viðurkennda bótaskyldu verktaka vegna þessa, enda bagalegt að átta ára gömul bygging sé nánast ónothæf.

Illa þykir hafa staðið að byggingu nýs húss undir barna- …
Illa þykir hafa staðið að byggingu nýs húss undir barna- og unglingageðdeild spítalans. mbl.is/Ómar

Sjaldgæft tóm til viðhalds

Ingólfur bendir einnig á að þó fjármagn geti verið til staðar, sé ekki endilega rými til viðhalds.

„Að mestu leyti er húsnæði okkar í notkun allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þetta er ekki eins og skrifstofuhúsnæði, þar sem unnið er frá níu til fimm.“

Þeir kunna því vel að meta þegar sá sjaldgæfi atburður á sér stað, að deildir eru sameinaðar á einn gang í stað tveggja.

„Þessi gangur losnaði og þá gátum við ráðist í allsherjar viðgerðir og hagræðingar,“ segir Egill.

Bendir hann, því til dæmis, á snyrtingar sem settar hafa verið upp í sjúkrastofunum. Töluverð smithætta er sögð fylgja sameiginlegum snyrtingum og tilkoma persónulegra baðherbergja því mikil framför fyrir heilbrigði sjúklinga.

Gangurinn gerður upp eftir sameiningu tveggja deilda.
Gangurinn gerður upp eftir sameiningu tveggja deilda. mbl.is/Eggert

Eins og að senda togara á vertíð

Önnur deild verður svo færð á hinn nýuppfærða gang, og þannig hægt að gera við þann gang sem losnar um leið.

Egill segir að menn bíði ekki boðanna þegar þeir fái annað eins tækifæri, enda ekki víst að það gefist aftur næstu áratugina.

„Þetta er svolítið eins og að senda skuttogara úr höfn á heljarinnar vertíð og fá hann svo ekki aftur í land fyrr en eftir tuttugu ár. Þú getur rétt ímyndað þér hvað þarf að laga.“

Framkvæmdir í fullum gangi á ganginum.
Framkvæmdir í fullum gangi á ganginum. mbl.is/Eggert

Fengu milljarð í fjárlögum

Mat sjúkrahússins er að heildarfjárþörf fyrir viðhald sé nú um fimm milljarðar króna, fyrir viðgerðir utan- sem innanhúss.

Í nýsamþykktum fjárlögum Alþingis fyrir þetta ár var sérstaklega veittur einn milljarður króna í viðhald á byggingum spítalans.

„Við stjórnendur Landspítala erum afar þakklát fjárlaganefnd og Alþingi fyrir þetta framlag, en væntum þess að þessu átaki verði fylgt eftir á komandi árum,“ segir Ingólfur, enda hafi mikil þörf safnast upp á síðustu árum.

Bætir hann við að um helmingur fjárins muni fara í að gera við ytra byrði bygginganna, til að hindra að raki berist inn í húsin, og hinn helmingurinn í viðgerðir innandyra.

Víða er viðhalds þörf, eins og sjá má á þessum …
Víða er viðhalds þörf, eins og sjá má á þessum stiga utan á einni byggingu spítalans. mbl.is/Eggert

Lagnir farnar að gefa sig

Næst leiðir Egill okkur á aðra deild og inn í sjúkrastofu, þar sem allt er á tjá og tundri.

Er okkur tjáð að vatnslögn hafi opnast í veggnum aðeins tveimur dögum áður. Til að bregðast fljótt við lekanum var veggurinn rifinn upp til að komast að lögninni, og ljóst að mikið hefur gengið á. Koma þurfti þá sjúklingnum, sem áður gisti stofuna, í aðrar vistarverur.

Athygli vekur að ysta lag veggjarins, múrinn, hefur á sínum tíma verið lagður utan á spýtur, sem hvíla svo upp við timburgrind.

„Ég held að svona myndu menn ekki gera í dag,“ segir Egill og bætir líka við að lagnirnar séu, eins og byggingarnar sjálfar, farnar að gefa sig.

Vatnslögn opnaðist í vegg sjúkrastofunnar á milli jóla og nýárs.
Vatnslögn opnaðist í vegg sjúkrastofunnar á milli jóla og nýárs. mbl.is/Eggert
Múrinn liggur utan á spýtum, eins og sjá má.
Múrinn liggur utan á spýtum, eins og sjá má. mbl.is/Eggert

Draumórar stjórnmálamanna

Förinni er þá haldið í Fossvog með spítalaskutlunni, en svo kallast tveir sjö manna bílar sem fara á kortersfresti á milli þessara tveggja byggingakjarna Landspítalans.

Gefst blaðamanni tækifæri til að spyrja Ingólf hvernig honum lítist á hugmyndir ákveðinna stjórnmálamanna, um byggingu nýs Landspítala á öðrum stað.

„Þær koma manni fyrir sjónir sem draumórar,“ svarar hann um hæl. „Það er nógu erfitt að finna fjármagn til að gera við það sem til er nú þegar, hvað þá að reisa heilan nýjan spítala.“

Landspítalinn Fossvogi tók til starfa í árslok 1967, en vinna …
Landspítalinn Fossvogi tók til starfa í árslok 1967, en vinna við byggingu hans hófst árið 1952. mbl.is/Eggert

Á sýklalyfjum í sjö mánuði

Vilhjálmur Ólafsson, umsjónarmaður Landspítala í Fossvogi, tekur á móti okkur við komuna þangað. Liggur leiðin fyrst inn í stigahús á norðurhlið A-álmunnar, sem er vængur spítalans til austurs.

Athygli hafði vakið fyrr í vikunni, mynd sem skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson birti á Facebook-síðu sinni, þar sem sjá mátti myglu í þessu sama stigahúsi.

Tómas hefur enda verðuga ástæðu til að vekja athygli á þessum vanda. Hann er einn þeirra lækna sem, fyrir ekki svo löngu, veiktust af myglusvepp á Landspítalanum. Var hann á sýklalyfjakúrum í sjö mánuði samfleytt og þurfti að gangast undir skurðaðgerð á ennisholum.

Ingólfur segir að fyrirhugað sé að laga þessa hlið álmunnar nú í ár, bæði að innan og utan, en verkið mun kosta um 200 milljónir króna. B-álman, til vesturs, er yngri og krefst því ekki jafn mikils viðhalds.

Ingólfur og Vilhjálmur segja frá álmum spítalans og ástandi þeirra.
Ingólfur og Vilhjálmur segja frá álmum spítalans og ástandi þeirra. mbl.is/Eggert
Stigahúsið er farið að láta verulega á sjá.
Stigahúsið er farið að láta verulega á sjá. mbl.is/Eggert

„Bráðabirgða-bráðabirgðahúsnæði“

Fyrir norðan aðalbyggingu spítalans í Fossvogi standa nokkur smærri hús, þar á meðal húsið Greniborg, sem reist var á áttunda áratugnum til að hýsa skrifstofur lækna til bráðabirgða.

Greniborg hefur nú verið rýmd, eftir að myglu varð vart í húsinu. Settir hafa verið upp gámar í staðinn, litlu nær spítalanum, til að hýsa skrifstofur sömu lækna. 

„Bráðabirgða-bráðabirgðahúsnæði,“ kallar Ingólfur í gamni gámana, sem orðnir eru fjölmargir við spítalabygginguna með þessari nýju viðbót í kjölfar myglunnar í Greniborg.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort það hús verði hreinlega rifið, en fyrst þarf að meta kostnaðinn við að gera það upp.

Greniborg stendur tóm, eins og Eirberg og fleiri byggingar Landspítalans.
Greniborg stendur tóm, eins og Eirberg og fleiri byggingar Landspítalans. mbl.is/Eggert
Hluti gámanna sem komið hefur verið fyrir í Fossvogi. Eru …
Hluti gámanna sem komið hefur verið fyrir í Fossvogi. Eru þeir samtengdir stigagangi spítalans. mbl.is/Eggert

Tæplega fimmtugur bráðabirgðagafl

Við kveðjum Vilhjálm og tökum skutluna aftur upp að Hringbraut, en hana taka bæði starfsmenn og sjúklingar spítalans. 

Eftir stutta göngu um svæðið verður okkur að lokum litið á hlið byggingar, sem illa er farin, og Ingólfur segir að þarfnist viðhalds.

„Þetta er bráðabirgðagafl. Þarna átti að rísa viðbygging,“ segir hann.

Síðan eru liðin tæplega fimmtíu ár. Og það sama gildir um fleiri byggingar spítalans, sem margar risu á sjöunda og áttunda áratug síðasta aldar. Á þeim tíma var gert ráð fyrir að við þær yrði byggt á fylgjandi árum.

Gert var ráð fyrir ýmsum viðbyggingum þegar húsnæði Landspítalans var …
Gert var ráð fyrir ýmsum viðbyggingum þegar húsnæði Landspítalans var reist við Hringbraut. mbl.is/Eggert

Átti að verða hluti risastórrar byggingar

Til frekari sönnunar bendir Ingólfur til suðurs yfir gömlu Hringbrautina, á Læknagarð sem stendur þar einn á berangri, en átti eitt sinn að verða aðeins lítill hluti af risastórri spítalabyggingu. Ber gafl hans þess enn merki.

Menn virðast hafa verið stórhuga á þessum tíma?

„Það er einmitt málið, og ástæðan fyrir því að maður geldur varhug við glæstum hugmyndum um byggingu nýs Landspítala á nýjum stað. Hér allt í kring, hver í sínu horni, eru hálfkaraðir minnisvarðar um stórhuga menn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert