Bjóða 200 þúsund í fundarlaun

Tíkin Tinna hefur verið týnd síðan 28. desember. Eigendur bjóða …
Tíkin Tinna hefur verið týnd síðan 28. desember. Eigendur bjóða 200.000 kr. í fundarlaun. Ljósmynd/Facebook

„Við erum búin að vera að leita alveg nánast í alla nótt og í gær og við erum bara orðin mjög örvæntingarfull,“ segir Andrea Björnsdóttir í samtali við mbl.is en hundurinn hennar, Tinna, er búin að vera týnd í fjóra daga. Andrea býður 200 þúsund krónur í fundarlaun fyrir Tinnu.

Andrea var að leita að Tinnu allan daginn í gær og fram á kvöld í hrauninu á Vatnsleysuströnd þegar björgunarsveitir voru kallaðar út til að leita að Andreu. „Ég bjóst alls ekki við því að það væri farið að leita að mér, ég hélt að allir væru að leita að Tinnu,“ segir Andrea. „Svo þegar ég kom, af því að síminn minn var batteríslaus, þá fékk ég að hringja í Vogum og þá fékk ég bara algjört sjokk að heyra að það hafi verið að leita að mér.“

Frétt mbl.is: Þyrlan ræst út á Suðurnesjum

„Ég var komin svolítið langt af því ég var að fylgja sporum eftir sem að ég hélt að væri hún, ég var bara svo þrjósk að ég ætlaði að reyna að finna hana,“ segir Andrea en henni er mikið í mun að finna Tinnu. „Hún er svo miklu meira virði fyrir okkur heldur en peningar.“

Var týnd í sólarhring áður en leit hófst

Tinna var í pössun hjá konu í Keflavík þegar hún hvarf en Andrea var stödd erlendis. „Hún lét okkur ekki vita fyrr en á gamlársdag þegar við komum og ætluðum að sækja hana. Hún var ekki búin að láta neinn vita,“ segir Andrea sem er ekki sátt við að Tinna hafi verið týnd í um sólarhring áður en konan lét nokkurn mann vita af hvarfi hennar.

Tinna er þriggja ára gömul, blíð og góð og lítil …
Tinna er þriggja ára gömul, blíð og góð og lítil í sér og afar hrædd við flugelda. Ljósmynd/Facebook

Tinna er þriggja ára gömul, blíð og góð og lítil í sér að sögn Andreu en líka afar hrædd við flugelda og telur hún líklegt að Tinna hafi fælst við hávaðann frá þeim. „Við erum að vonast til að hún hafi farið aftur í bæinn af því að þá hefur hún kannski getað fundið sér skjól,“ segir Andrea. Hún hefur heyrt af nokkrum öðrum hundum sem týndust um áramótin, þar á meðal einum sem týndist í Keflavík sem fannst síðan í Hafnarfirði.

„Hún hefur komist alveg ofsalega langt á þessum stutta tíma og Tinna okkar er búin að vera týnd alveg í fjóra sólarhringa,“ segir Andrea og biðlar til almennings að hafa augun opin fyrir Tinnu. „Við erum rosalega týnd með hvar við eigum að leita en sem betur fer er rosalega góður hópur á Hundasamfélaginu sem er að hjálpa okkur að leita.“ 

Tinna er örmerkt en er ekki með ól og biður Andrea alla þá sem kunna að hafa séð til Tinnu að hafa samband í síma 846-6613 eða 615-6056 en fundarlaunin eru líkt og áður segir 200 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert