Bjarni: Ytri ramminn liggur fyrir

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir í Valhöll á fund með …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir í Valhöll á fund með þingmönnum flokksins. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að allur ytri rammi að samstarfi í viðræðunum við Viðreisn og Bjarta framtíð liggi fyrir. Þetta sagði hann í samtali við fjölmiðla eftir að hafa fundað með þingflokki sínum í Valhöll í morgun, en Bjarni sagði að það hefði verið tímabært að hitta þingflokkinn. Viðræðurnar hefðu ennfremur verið gott veganesi inn í viðræðurnar.

„Við erum komin með allan ytri rammann að samstarfi og það eru ágætar líkur að við getum lokið því, en það eru samt mikilvæg atriði sem standa ennþá út af,“ sagði Bjarni í samtali við fréttamenn.

Fundinum lauk nú á tólfta tímanum. Nú munu viðræður við Viðreisn og Bjarta framtíð halda áfram, en Bjarni vildi ekki gefa upp hvenær búast megi við endanlegri niðurstöðu úr þeim.

Bjarni segir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi tekið því ágætlega sem verið sé að ræða við Viðreisn og Bjarta framtíð. „Við ræddum líka veikleikana og styrkleikana í svona stjórnarsamstarfi og reynum að gera það opið og hreinskiptið,“ sagði Bjarni. Aðspurður sagði hann ljóst að í þessu samstarfi væri mjög tæpur meirihluti og það hefði verið rætt undanfarna mánuði. Einnig hafi menn verið að ræða um það hvernig verkefni muni skiptast á Alþingi. Hann tók þó fram að einnig væru margir kostir við svona samstarf.

Spurður út í Evrópumálin og hvort umræða um þau hafi verið erfið á fundinum svaraði Bjarni því neitandi. „Þau eru í sjálfu sér ekkert risamál í þessum viðræðum.“

Aðspurður segist Bjarni ekki eiga í neinu samtali við Framsóknarflokkinn eða Vinstri-græna. Hann sé aðseins áhorfandi hvað það varðar. 

Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hófust í gær með fundi formanna flokkanna þriggja auk þeirra Bjartar Ólafsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, og Jónu Sólveigar Elínardóttur, varaformanns Viðreisnar.

Óformlegar viðræður áttu sér stað milli forystumanna flokkanna þriggja milli jóla og nýárs. Þeim þreifingum lyktaði með för Bjarna á fund Guðna Th. Jóhannessonar að Bessastöðum daginn fyrir gamlársdag þar sem hann fékk afhent stjórnarmyndunarumboðið í annað sinn. Fundað verður aftur í dag.

Fundurinn í gær stóð yfir í um það bil eina og hálfa klukkustund og sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, að aðallega hefði skipulag áframhaldandi stjórnarmyndunarviðræðna verið til umræðu á fundinum. Formennirnir þrír hljómuðu allir bjartsýnir á framhald viðræðnanna fyrir og eftir fund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert