Mögulega rætt um ráðherrastóla

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal þess sem rætt var í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í dag voru mögulegar stjórnarskrárbreytingar. Fundað verður aftur á morgun klukkan þrjú. Hugsanlega verður rætt frekar á þeim fundi um skiptingu ráðherraembætta en verið hefur hingað til. Til þessa hefur einungis verið ákveðið að komi til ríkisstjórnarsamstarfs flokkanna verði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra.

„Við vorum að ræða slík mál og ýmis praktískt atriði eins og það hvernig þessi stjórnarmeirihluti myndi leggjast út í þinginu, inn í nefndirnar. Síðan fórum við aftur í ýmis atriði sem við höfum áður rætt fyrir stjórnarsáttmálann. Þannig að þetta var svona fundur margra mála en ekki mjög mikilla tíðinda,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is eftir fundinn. Spurður hvort meira kunni að sjást til lands eftir fundinn á morgun sagði hann:

„Við skulum sjá. Við ætlum að nota tímann þangað til til þess að slípa til texta og síðan ætlum við að ræða betur verkaskiptingu og slíka hluti á morgun,“ sagði Bjarni. Spurður hvort farið væri að ræða skiptingu ráðherrastóla sagði hann að ekki væri víst að hægt yrði að ræða það á morgun eða botna slíkt eins og hann orðaði það. „En það er samt nauðsynlegt að við ræðum það. Það er mjög mikilvægur hluti af stjórnarmyndunarviðræðum.“

Spurður hvort hann geti ímyndað sér hvenær rætt verði frekar um skiptingu ráðherrastóla segir Bjarni: „Það gæti verið á dagskrá á morgun.“

Fundinn í dag sátu auk Bjarna þeir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna, Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, og Björt Ólafsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert