Íslendingar flúðu flóðbylgju á Fídji

Fjölskyldan: Börkur, Kristín, Anna Karen, Hrefna Ágústa og Marinó.
Fjölskyldan: Börkur, Kristín, Anna Karen, Hrefna Ágústa og Marinó.

Jarðskjálfti sem mældist 7,2 stig reið yfir strönd Fídji-eyja í gærkvöldi og var gefin út flóðbylgjuviðvörun í kjölfarið. Íslensk fjölskylda, sem er í heimsreisu, er meðal þeirra sem þurftu að forða sér hærra upp í land. Engan sakaði í skjálftanum og búið er að aflétta viðvöruninni. 

Upptök skjálftans voru á hafi úti, í um 220 km fjarlægð frá Nadi og 283 km fjarlægð frá höfuðborg Fídji, Suva. 

Kristín Ágústsdóttir er ásamt eiginmanni sínum, Marinó Stefánssyni, og þremur börnum; Önnu Karen 15 ára, Berki 14 ára og Hrefnu Ágústu, 9 ára, í langþráðri heimsreisu en þau hafa verið á Fídji síðan á nýársdag. Síðasti áfangi ferðarinnar er bandaríska stórborgin Los Angeles en þangað fara þau á mánudag. Fjölskyldan kemur heim í Neskaupstað um miðjan janúar en þau eru meðal annars búin að ferðast til London, Taílands, Ástralíu og Nýja-Sjálands þar sem þau eyddu jólunum. 

Beðið í kirkjunni - netið kemur sér vel á ferðalögum …
Beðið í kirkjunni - netið kemur sér vel á ferðalögum um heimsins höf.

Kristín segir í samtali við mbl.is að hún hafi fundið fyrir jarðskjálftanum en ekki gert sér grein fyrir því að þetta væri jarðskjálfti fyrr en henni var sagt frá því. Marinó var ásamt Berki á túnfiskveiðum og fundu þeir ekkert fyrir skjálftanum. Fjölskyldan dvelur á hóteli á Coral Coast á suðvesturströnd aðaleyjunnar í Fídji-eyjaklasanum.

Að sögn Kristínar voru þeir nýkomnir heim þegar starfsmaður hótelsins sagði þeim að þau þyrftu að fara upp í hæðirnar vegna flóðbylgjuviðvörunar. Hún segir að allir starfsmenn hótelsins hafi verið mjög rólegir og hún reyndi sitt besta að halda ró sinni þegar hún hljóp til að sækja fjölskylduna. 

„Þetta var eiginlega alveg absúrd, einhvern veginn hvarflaði ekki að mér að við myndum lenda í þessu, þó að sumir aðrir hafi kannski óttast það. En já, ég viðurkenni það að ég var nokkuð óróleg á meðan var verið að bíða eftir bílnum og svo fannst mér taka óratíma fyrir bílinn að fara af stað,“ segir Kristín.

„Við keyrðum í um 15 mínútur upp í hæðirnar ofan við ströndina og þar vorum við sett út við kirkju sem við komumst sem betur fer inn í en það var mjög heitt og rakt og mikil sól,“ segir hún.

Að sögn Kristínar voru allir kirkjugestir frekar rólegir og það leið varla klukkutími þar til hættuástandinu var aflýst. Hún viðurkennir að fjölskyldan hafi ekkert verið að leggja áherslu á að komast með fyrsta bíl til baka enda muna flestir eftir náttúruhamförunum á Indlandshafi á öðrum degi jóla árið 2004 og í Japan 2011. Kristín segir að börnin hafi verið frekar óróleg þegar fjölskyldan var send upp í kirkjuna en þegar þau voru búin að finna á netinu hvað hæstu flóðbylgjurnar voru á Taílandi á sínum tíma róuðust þau, segir Kristín og bætir við: „Guði sé lof fyrir internet.“

Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands samanstanda Fídji-eyjar í Suður-Kyrrahafi af rúmlega 320 eyjum auk fjölda smáeyja (e. inlet). Eyjaklasinn nær yfir svæði sem er um 3 milljónir km2 að flatarmáli en heildarflatarmál eyjanna sjálfra er aðeins um rúmlega 18.000 km2. Um 100 eyjanna eru byggðar og er áætlað að íbúar Fídji-eyja hafi verið rúmlega 890.000 um mitt ár 2005.

Fídji-eyjaklasinn er í Suður-Kyrrahafi.
Fídji-eyjaklasinn er í Suður-Kyrrahafi. Wikipedia
Marinó og Börkur voru á túnfiskveiðum þegar jarðskjálftinn reið yfir.
Marinó og Börkur voru á túnfiskveiðum þegar jarðskjálftinn reið yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert