„Tökum þessu mjög alvarlega“

Erfiðleikar hafa verið í byrjunarfasa á rekstri kísilmálmverksmiðju United Silicon …
Erfiðleikar hafa verið í byrjunarfasa á rekstri kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík.Vinnueftirlitið gerði 17 athugasemdir í eftirlitsferðum sínum í desember. Ljósmynd/United Silicon

„Við tökum þessum mjög alvarlega. Við höfum farið þarna í eftirlitsferðir og munum fara í fleiri eftirlitsferðir,“ segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, um fréttir af reykmengun og aðbúnaði starfsmanna í kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík.

Full­yrt var í frétt á vef Stund­ar­inn­ar í gær að kís­il­málm­verk­smiðja United Silicon hefði að und­an­förnu losað hættu­leg eit­ur­efni í skjóli næt­ur út úr reyk­hreinsi­virki verk­smiðjunn­ar og út í and­rúms­loftið. Mynd­band sem var sagt sýna starfmenn í reykfylltu rými var birt með fréttinni.

Eyjólfur segir það ástand sem myndbandið sýni vissulega gefa Vinnueftirlitinu ástæðu til að fara á staðinn og skoða, en mælir samt með því að starfmenn hafi frekar beint samband við stofnunina en í gegnum fjölmiðla. „Þetta er ástand sem varir kannski í stuttan tíma og svo þegar við komum á staðinn að skoða þá er ekkert endilega sama ástand,“ segir hann.

„Menn virðast hafa lagt mikla áherslu á að taka myndband og koma því í fjölmiðla en ekki að hringja í okkur og biðja okkur að koma í hvelli.“ Hann bætir við að Vinnueftirlitið sé með mann á vakt allan sólarhringinn og geti því brugðist skjótt við. „Það er rétta aðferðin ef það skapast eitthvað hættuástand. Ég tala nú ekki um í fyrirtækinu eins og það er núna.“

Vinnueftirlitið er ekki enn búið að gera heildarúttekt á öllum þáttum í starfsemi kísilmálmverksmiðjunnar, né heldur hefur verið gefin út endanlega vottun á öryggisstarfsemi United Silicon, sem er að sögn Eyjólfs algjör grundvöllur fyrir starfsemi á borð við þá sem þar fer fram.

Frá verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ.
Frá verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

Gerðu 17 athugasemdir

Eyjólfur segir Vinnueftirlitið hafa farið í þrígang í eftirlitsferðir í kísilmálmverksmiðjuna, þar af í tvígang í desember sl., fyrst 7. og svo aftur 21. desember.

„Við mátum ekki ástandið þannig í þessum eftirlitsferðum að við myndum fyrirskipa lokun á verksmiðjunni, en við gerum þarna athugasemdir sem tiltölulega stuttir frestir eru gefnir á og það reynir á að þeir komi þeim hlutum í lag.“

Viðræður fóru enn fremur fram við öryggisfulltrúa um það kerfi sem þeir eiga að hafa, segir Eyjólfur, og nefnir að til þurfi að vera áhættumat fyrir verksmiðjuna, áætlun um forvarnir og þá þurfi fyrirtækið að vera með öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefnd eigi að vera starfrækt. „Það var verið að fara yfir það með þeim að þeir verði að koma þessu á og síðan voru gerðar 17 athugasemdir.“

Athugasemdirnar voru af ýmsum toga og misalvarlegar og var fyrirtækinu gefinn takmarkaður frestur til að koma öryggis- og vinnuverndarmálum í rétt horf. Fresturinn er ekki runninn út, en United Silicon ber að senda Vinnueftirlitinu skýrslur og tilkynningar um úrbætur.

„Þetta voru m.a. athugsemdir vegna reyks sem verður þegar verið er að steypa í svokallaða sæng og þar er áskilið að menn noti persónuhlífar og öðrum starfsmönnum sé forðað frá mengunarhættu.“ Þessa aðferð á þó eingöngu að notast við í neyðartilfellum að sögn Eyjólfs.

„Tökum staðinn út í því vonda ástandi sem þá kann að vera“

Erfitt getur hins vegar verið fyrir Vinnueftirlitið að meta hvenær það sé og því skipti miklu máli að starfsmenn og aðrir láti stofnunina vita þegar eitthvað bjátar á.

„Við komum í eftirlitsferðir og þá er ástandið með einhverjum hætti,“ segir Eyjólfur og nefnir sem dæmi að Vinnueftirlitið hafi komið í eftirlitsferð til að skoða ofnreksturinn og að á því augnabliki hafi ástandið verið nokkuð gott. „Síðan leið kannski einhver smá tími og þá var ástandið öðruvísi. Þannig að menn verða að kvarta til okkar og þá komum við á staðinn og tökum staðinn út í því vonda ástandi sem þá kann að vera.“  

Mikilvægt sé fyrir stofnunina að fá ábendingar og kvartanir beint til sín í stað þess að frétta af þeim í gegnum fjölmiðla. „Menn geta treyst því að við sinnum þessum málum. Við erum faglegt, nákvæmt og strangt eftirlit,“ segir Eyjólfur. Þeir starfsmenn sem setja sig í samband við eftirlitið geti treyst því að fullur trúnaður gildi, enda sé kveðið á um slíkt í lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert