Ferðamönnum fjölgar um 40% á einu ári

Ferðamenn í Reykjadal.
Ferðamenn í Reykjadal. mbl.is/Rax

Alls komu 1.767.726 erlendir ferðamenn hingað til lands á síðasta ári, eða um fjörutíu prósent fleiri en árið 2015, þegar hingað komu 1.261.938 ferðamenn. Næstum jafn margir heimsóttu landið í ágústmánuði og á öllu árinu 2002.

Þetta sýna nýjar upplýsingar frá Ferðamálastofu, en af þeim má meðal annars ráða að fjöldi ferðamanna hefur meira en sexfaldast í desembermánuði frá árinu 2010. Heimsóknir ferðamanna eru þá rúmlega fjórfalt fleiri en fyrir tíu árum, árið 2006.

Stærsti hópur ferðamanna á liðnu ári kom frá Bandaríkjunum, alls 415.287 einstaklingar, eða fleiri en allir erlendir gestir á árinu 2006, sem þá voru samtals 398.901.

Erlendir ferðamenn við Reynisfjöru.
Erlendir ferðamenn við Reynisfjöru. mbl.is/Ómar

Ágúst og júlí vinsælastir

Næstfjölmennastir voru Bretar, en frá Bretlandi komu 316.395 manns til landsins.

Ljóst er að ágúst og júlí eru áberandi vinsælastir hjá þeim sem kjósa að sækja landið heim. Rúmlega 241 þúsund manns komu til landsins í ágúst og um 236 þúsund í júlí. Þar á eftir kemur júnímánuður, með rúmlega 186 þúsund gesti.

Til samanburðar má nefna að allt árið 2002 komu til landsins um 248 þúsund ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert