Glerkísilrykið veldur minnstum skaða

Kísilrykið sem verður til við framleiðslu United Silicon í Helguvík …
Kísilrykið sem verður til við framleiðslu United Silicon í Helguvík er svo nefnd glerkísilryk sem er sú tegund kísilryks sem veldur hvað minnstum skaða. Ljósmynd/United Silicon

Kísilrykið sem starfsmenn kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, voru sýndir í myndbandi hleypa út í andrúmsloftið framhjá reykræsivirki verksmiðjunnar er svokallað glerkísilryk og er sú gerð kísilryks sem veldur hvað minnstum skaða.  

Þetta segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins. Engin auðskotaefni séu hins vegar skaðlaus fyrir lungun og því eigi allir að starfsmenn að nota persónuhlífar við þessar aðstæður. „United Silicon eiga í miklum byrjunarerfiðleikum eins og allir vita, og þar sem mengun er til staðar þar á starfsfólkið að nota persónuhlífar,“ segir hann. Glerkísilrykið á ekki að fara ofan í lungu í skaðlegu magni ef hlífarnar eru notaðar.

Full­yrt var í frétt á vef Stund­ar­inn­ar í fyrradag að kís­il­málm­verk­smiðja United Silicon í Helgu­vík hefði að und­an­förnu losað hættu­leg eit­ur­efni í skjóli næt­ur út úr reyk­hreinsi­virki verk­smiðjunn­ar og út í and­rúms­loftið. Mynd­band sem sýndi reyk eða ryki sleppt út í and­rúms­loftið var birt með frétt­inni. 

Kristallað kísilryk veldur hættu á lungnasjúkdómum

Mbl.is hafði eftir Sig­ríði Kristjáns­dótt­ur, teym­is­stjóra eft­ir­lit­steym­is hjá Um­hverf­is­stofn­un, að kísilrykið væri hættulaust og ekki eiturefni, þó ekki ætti að hleypa því út í umhverfið með þessum hætti.

Eyjólfur staðfestir þetta. „Þetta er svo kallað amorf- eða glerkísilryk sem er ekki kristallað og það hefur verið talið skaða minnstaformið af kísilryki. Þetta er það form kísilsýru sem er skaða minnst, en það á samt ekki að anda því að sér í miklum mæli.“

Kristallað kísilryk, svo nefnd cristobalite og tridymite kísilryk, getur hins vegar valdið alvarlegum lungnasjúkdómum. „Þetta á til dæmis við um kristölluðu kísilsýruna sem myndaðist í Kísiliðjunni við framleiðslu á kísilgúr,“ segir hann. „Hún veldur hættu á mjög alvarlegum lungnasjúkdómum sem eru ekki tengdir við þetta ókristallaða efni með sama hætti.“

Kristallaða útgáfan er hins vegar til staðar í hráefnunum sem notuð eru við framleiðslu kísilmálmverksmiðunnar, en hráefnin eru ekki í rykformi.

Eiga að skipta um föt áður en heim er farið

„Það eru til mengunarmörk fyrir þetta efni og menn eiga að forðast alla mengun ofan í lungu,“ segir Eyjólfur.

Þeir sem vinni í slíku kísilryki eigi því til að mynda að skipta um föt áður en heim er farið. „Það á að vera þarna fataskiptaaðstaða og starfsmenn eiga að geta farið í sturtu og skipt um og farið í hrein föt eftir vinnuna.“

Hann bætir við að Vinnueftirlitið sé ekki búið að ljúka úttekt sinni á verksmiðjunni. „Við eigum eftir að fara í fleiri eftirlitsferðir, því menn hafa verið mjög uppteknir af þessum bráðavandamálum og þá hafa kannski ýmis önnur vandamál ekki verið skoðuð jafn mikið. Almennt gildir það þó að þar sem ryk er í vinnufatnaði, þá eiga þau föt ekki að fara með heim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert