Höglin rétt hjá höfði konunnar

Bræður sem eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í byrjun …
Bræður sem eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í byrjun ágúst mættu í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Golli

Hagladrífan sem skotið var á bifreið í Fellahverfi í Reykjavík í ágúst á síðasta ári, eða kjarni henn­ar sem að megn­inu til lent á hurð bif­reiðar­inn­ar, var um hálfan metra frá höfði kon­u sem var í bif­reiðinni. Dreif­ing hagl­anna var það lít­il að hefðu högl­in hafnað hálfum metra ofar hefðu þau öll hæft höfuð kon­unn­ar. 

Þetta kom fram í máli Magnúsar Þórs Jónssonar, prófessors í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem aðalmeðferð máls gegn tveimur bræðrum fór fram en þeir eru ákærðir í málinu. Prófessorinn vann skýrslu um hættu­eig­in­leika af­sagaðrar hagla­byssu sem notuð var í um­rætt sinn. Konan sem var í bílnum bar einnig vitni í dag og telur hún sig heppna að hafa sloppið með skrámur.

Það er helst þrennt sem ákvarðar hættuna þegar hleypt er af skotvopnum að því er fram kom í máli prófessorsins; hversu þung þau eru, hversu hratt þau fara og hver dreifing þeirra er. Skotvopn er mjög óstöðugt og getur verið erfitt að stýra því hvert skot fer ef búið er að stytta hlaupið og skaftið eins hafi verið í þessu tilfelli. Með þeim eiginleikum sé vopnið orðið mun hættulegra en ella vegna þess hve óstöðugt það er en einnig var auka púðurhleðsla í skotunum.

Prófessorinn og annar sérfræðingur sem einnig bar vitni í dag og eru sammála um að skotvopn af þessu tagi séu með hættulegustu skotvopnum sem til eru. 

Fram kom að hraðinn á höglunum, þegar þau höfnuðu á bílnum, hafi verið um 230-240 m/sek. sem er talsvert minni hraði heldur en ef skotið hefði verið af venjulegri haglabyssu. Hinsvegar sé það talsvert meiri hraði en þurfi til að rjúfa skinn og brjóta bein en hraðinn sem þarf til að rjúfa skinn er aðeins um 20 m/sek. 

Annar bræðranna, Marc­in Wieslaw Naba­kowski, sem viðurkennt hefur að hafa skotið úr byssunni þegar skotin hæfðu bílinn, segist hafa miðað byssunni niður á við og ætlað að hæfa jörðina en við höggið þegar hann hleypti skoti af byssunni hafi hún lyfst upp á við.

Bræðurnir mættu báðir til skýrslutöku þegar aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Að lokinni skýrslutöku þurfti þó sá eldri, Rafal Ma­rek Naba­kowski, að víkja þar sem hann dvelur á spítala vegna sýkingar í handlegg. Aðalmeðferðin átti að halda áfram í fyrramálið en var frestað til 13. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert