Fimm og hálft ár fyrir tvær nauðganir

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ómar Óskarsson

18 ára piltur hlaut fimm og hálfs árs dóm fyrir að nauðga tveimur 15 ára stúlkum. Foreldrar piltsins fóru með hann á geðdeild eftir fyrri nauðgunina. Hann var ekki lagður inn og nauðgaði aftur sex dögum síðar. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald heldur. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttatímans í dag en dómurinn hefur ekki verið birtur.

Pilturinn hlaut fimm og hálfs árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir skömmu. Hann nauðgaði fimmtán ára stúlku á heimili sínu í Reykjanesbæ í lok júlí og var handtekinn í kjölfarið. Stúlkan lýsti hrottalegri líkamsárás, hvernig pilturinn tók hana kverkataki, sparkaði og sló, steig ofan á háls hennar, hótaði að drepa hana og nauðgaði henni tvívegis. Pilturinn reyndi að afmá sönnunargögn með því að losa sig við rúmföt.

Samkvæmt frétt Fréttatímans kemur fram í dómnum að foreldrar piltsins hafi því næst farið með hann á geðdeild og óskað eftir aðstoð. Þau hafi undrast að hann hafi ekki verið lagður inn. Sex dögum síðar nauðgaði hann annarri 15 ára stúlku með hrottalegum hætti. Sá atburður átti sér stað í austurbæ Reykjavíkur og kölluðu vitni lögreglu á staðinn. Stúlkan var flutt illa leikin á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Við geðrannsókn á piltinum kom fram að hann væri reiður, ætti erfitt með að finna til með öðrum og axla ábyrgð. Hann væri hins vegar sakhæfur, segir enn fremur í fréttinni.

Frétt mbl.is: Pilturinn í varðhaldi til 19. ágúst

Uppfært 16.23:

Í Fréttatímanum var það ranglega fullyrt, og haft eftir hér, að þolandi seinni nauðgunarinnar og móðir hennar hefðu sagt fyrir dómi að vinir hennar hefðu hafnað henni. Svo var ekki, og hefur fréttin nú verið uppfærð til samræmis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert