Stjórnarsáttmálin verði tímasett verklýsing

Formaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti þingmenn um gang stjórnarmyndunarviðræðna sl. miðvikudag.
Formaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti þingmenn um gang stjórnarmyndunarviðræðna sl. miðvikudag. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki fundað með þingflokki sínum frá því á miðvikudag. Brynjar Níelsson, varaformaður þingflokksins, segir þingmenn lítið vita hvað hafi verið rætt í stjórnarmyndunarviðræðum eftir þann fund. „Við vitum svo sem ekkert um þetta, en svo er spurning hvað það sé æskilegt að menn séu upplýstir mikið því þetta er viðkvæm umræða,“ segir Brynjar. „Menn geta haft mismunandi skoðanir á því.“

Guðlaugur Þór Þórðarson þingflokksformaður segir Bjarna hafa farið vel yfir málin á fundinum á miðvikudag og kveðst gera ráð fyrir að fundað verði aftur á næstunni.

Báðir eru þeir þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að fá fleiri ráðherrastóla en þá fimm sem rætt hefur verið um í fjölmiðlum. „Mér finnst það mjög sérstakt að flokkar sem tala fyrir jöfnu vægi atkvæða skuli heimta 50% af ráðherraembættunum,“ segir Brynjar. „Sjálfstæðisflokkurinn ætti að fá meira, ef mönnum finnst mikilvægt að það sé eitthvað jafnvægi eftir niðurstöðu lýðræðisins.“

Brynjar Níelsson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir sérstakt að flokkar sem …
Brynjar Níelsson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir sérstakt að flokkar sem tala fyrir jöfnu vægi atkvæða skuli heimta 50% af ráðherraembættunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór bendir á að smærri flokkar fái jafnan hlutfallslega fleiri ráðherraembætti. „Auðvitað finnst manni þetta vera vel í lagt,“ segir hann. „En það hefur nú verið almenna reglan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fengið að njóta þingstyrks síns í ríkisstjórnum fram til þessa. Það er alveg ljóst að þar verður engin breyting á núna.“

„Veitti ekkert af að hafa einhverja menn í þinginu“

Ásmundur Friðriksson, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, er heldur ekki sáttur við þessa skiptingu. „Þetta er náttúrulega eitt af því sem formaðurinn þarf að semja um,“ segir hann. „Ég hefði talið að hinir flokkarnir væru með það fáa þingmenn að þeim veitti ekkert af að hafa einhverja menn í þinginu.“ Máli sínu til stuðnings bendir Ásmundur á að það sé ekki reynslumikið fólk í þingmannahópum hinna flokkanna. „Sérstaklega ekki í Viðreisn og raunar bara tveir af fjórum þingmönnum Bjartrar framtíðar.“

Allir eru þeir sammála um að naumur meirihluti sé áhyggjuefni ef flokkarnir ná að mynda stjórn. „Það þýðir að þingmeirihluti þarf að vera mjög samstíga og það má lítið út af bregða,“ segir Guðlaugur Þór. „Það er krafa um að mál verði unnin í breiðari sátt en bara sem nemur þingmeirihlutanum.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, segir nauman þingmeirihluta gera …
Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, segir nauman þingmeirihluta gera þá kröfu að mál verði unnin í breiðari sátt en sem nemur þingmeirihlutanum. mbl.is/Eggert

„Það kallar auðvitað á mikla samstöðu og það þýðir ekkert að vera á einhverju einkaflippi við þær aðstæður,“ segir Brynjar.

Ásmundur tekur í sama streng og segir ekki síður mikilvægt við þessar aðstæður að stjórnarsáttmálinn sé mjög skýr. „Hann þarf bara að vera verklýsing og helst tímasett,“ segir hann.

Munu ekki samþykkja að kollvarpa sjávarútvegskerfinu

Bæði Ásmundur og Brynjar myndu gjarnan vilja að Sjálfstæðisflokkurinn fái atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, en fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum að Björt framtíð vilji þann ráðherrastól. „Ég tel að það sé ágætlega komið í okkar höndum. Við höfum mjög skýra stefnu í þessum málum,“ segir Ásmundur.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur æskilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fái atvinnuvega- …
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur æskilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fái atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar vildi þá gjarnan einnig sjá forsætis-, fjármála- og innanríkisráðuneytið fara til flokksins.

Hvorki Brynjar né Ásmundur telur það þó endilega áhyggjuefni, fari atvinnuvegaráðuneytið til Bjartrar framtíðar eða Viðreisnar þrátt fyrir ólíkar áherslur flokkanna í sjávarútvegs- og landbúnaðamálum.

Ég held að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins muni aldrei samþykkja það ef menn ætla að kollvarpa einhverju sjávarútvegskerfi með einhverri uppboðsleið sem enginn er búin að hugsa og enginn veit hvað gæti leitt til,“ segir Brynjar. Ég held að það þingflokkur Sjálfstæðisflokksins taki það ekki til greina að ana út í einhverja óvissu með þessa mikilvægu atvinnugrein.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert