Fresta innleiðingu á greiðsluþátttökukerfi

Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu.
Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu. mbl.is/Árni Sæberg

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu til 1. maí næstkomandi.

Það kemur fram á heimasíðu velferðarráðuneytisins en ákvörðunin byggist á því að meiri tíma þurfi til að undirbúa kerfisbreytinguna, fyrst og fremst vegna ýmissa tæknilegra örðugleika við útfærslu hennar.

Alþingi samþykkti 2. júní síðastliðinn breytingu á lögum um sjúkratryggingar þar sem kveðið var á um grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi á greiðslum sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og var gert ráð fyrir því að nýju lögin kæmu til framkvæmda 1. febrúar næstkomandi. 

Samkvæmt nýju greiðsluþátttökukerfi verður tryggt að mánaðarlegar greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu fari aldrei yfir tiltekið hámark og að þar með verði jafnframt sett þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir og geisla- og myndgreining.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert