Stjórnvalda að meta framhaldið

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta staðfestir kannski í megindráttum það sem skattyfirvöld og aðrir hafa verið búnir að átta sig á að við höfum verið svolítið sér á báti í þessum efnum og að þetta hafi verið umfangsmest í kringum og fyrir hrunið en síðan dregið úr þessu. En hins vegar er ljóst að það eru fjármunir þarna enn þá,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri í samtali við mbl.is um niðurstöður starfshóps fjármálaráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

Þarna séu nokkrir punktar sem ástæða er til að velta fyrir sér. Meðal annars erfiðleikar við að leggja mat á umfangið út frá þeim gögnum sem fyrir hendi séu. Einnig sem lýtur að samstarfi stofnana og mikilvægi þess að upplýsingaskipti eigi sér stað á milli þeirra. Stóri punkturinn sé hins vegar mikilvægi þess að stjórnvöld viti hvað sé í gangi í þessum efnum almennt séð. Hvort sem það lúti að eftirliti eða öðru. Niðurstöðurnar séu klárlega skref í rétta átt í þeim efnum.

Segir ekkert til um möguleg skattalagabrot

„Ég held að bæði hafi verið þörf á þessu og æskilegt að reynt sé að átta sig á því hvað þarna hefur verið í gangi og umfanginu. Hins vegar segir þetta ekkert um það hvað af þessu séu hugsanleg brot og hvað ekki. Þetta gefur engar vísbendingar um það,“ segir Bryndís. Þarna hafi aðeins verið reynt að kortleggja umfang umræddra eigna. „Skattayfirvöld hafa auðvitað verið á liðnum árum að leita allra leiða til þess að ná utan um hugsanleg brot.“

„Síðan er það kannski stjórnvalda að meta hvað eigi að gera með þessar niðurstöður. Að hluta til er þetta lýsing á ástandinu eins og það var og hafa verið gerðar breytingar á löggjöf, bæði hérna innanlands og alþjóðlega, varðandi upplýsingaskipti og annað slíkt,“ segir hún. Miklar vonir séu bundnar við sjálfkrafa upplýsingaskipti sem til standi að taka upp á næstu árum. „En síðan er það stjórnvalda að ákveða hvort þau telji ástæðu til að halda áfram með einhverja vinnu. Hvort menn vilja fara í það að greina þetta eitthvað betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert