Vill fund um eignir í skattaskjólum

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hefur óskað eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í næstu viku þar sem fram fari kynning á niðurstöðum starfshóps fjármálaráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

„Spurningar hafa vaknað um af hverju skýrslan var ekki birt fyrr, en samkvæmt fréttum var henni skilað í október. Margt þarf að skoða í framhaldinu. Til að mynda hvort frekari breytinga er þörf á löggjöf en Alþingi afgreiddi ýmsar breytingar til bóta í haust sem ætlað var að bæta löggjöf hvað varðar skattsvik og notkun skattaskjóla. Skoða þarf hvort nægilega vel er búið að framkvæmd skattaeftirlits og skattrannsókna. Og skoða þarf hvaða áhrif afnám hafta mun hafa á þessa hluti í framtíðinni og hvort fjármunir úr skattaskjólum hafa verið að skila sér inn í landið að undanförnu í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans,“ segir hún á Facebook-síðu sinni.

Katrín bendir á að kosin hafi verið efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í desember og ætti nefndin því að geta komið saman í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert