Geiturnar éta jólatré með bestu lyst

Kjammsað á fagurgrænni jólagrein.
Kjammsað á fagurgrænni jólagrein. Ljósmynd/Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir

Geitunum á Háafelli þykir fátt betra en að skræla börkinn af jólatrjám og taka þakklátar við þeim til endurvinnslu. Barrtré eru bæði lostæti og hollusta því þær þurfa trèni til að halda góðri heilsu og auk þess innihalda þau mikið af hollum bætiefnum. 

„Besta beitin er þar sem trjágróður og runnar eru til staðar. Ef þær komast í rósarunna þá éta þær hann alveg hreint án þess að blikna því þær hafa svo þykka vör og harða gómplötu að þær finna ekki fyrir þyrnunum,“ sagði Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli. 

Jóhanna segir að það geri geitunum ekkert gott að dæla í þær fóðurbæti. Eins og gildi um hrossin þurfi þær grófmeti til að melta rétt.

Jóhanna hefur starfað við geitabúskapinn frá því að hún fékk fyrstu geiturnar árið 1989 og vinnur hún markvisst að því að rækta upp landnámsgeitastofninn. Geiturnar eru 222 talsins og bera allar nafn nema þær yngstu. 

Geitabúið á Háafelli er staðsett í Hvítársíðu, sem er við rætur Síðufjalls, norðan Hvítár frá Síðumúlaveggjum að Kalmanstungu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert