Vilja upplifa ævintýri á Íslandi

Ferðamenn við Dyrhólaey.
Ferðamenn við Dyrhólaey. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það má ekki gleymast að langflestir þeirra erlendu ferðamanna sem sækja Ísland heim yfirgefa landið mjög ánægðir með dvöl sína hér á landi. Þetta segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri. Hún telur vöxtinn í greininni vera fagnaðarefni, þrátt fyrir þær áskoranir sem honum fylgi.

Gríðarleg aukning milli ára

„Við náttúrulega sáum fram á það mjög fljótlega að þetta yrði mjög stórt ár í þessum efnum og tölur fram eftir árinu hafa auðvitað bent til þess,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is. Ekki síst hafi það verið góð vísbending um í hvað stefndi hve mikið hlutfallið yfir komur ferðamanna hækkaði sumarið 2016 miðað við sumarið á undan. Fjölgunin tók einnig gríðarlegt stökk síðustu mánuði ársins en hlutfallsleg aukning náði hámarki í desember og var 76% milli ára.

„Það er auðvitað fordæmalaust að eftirspurn innan atvinnugreinar vaxi viðlíka hratt og þarna er, um 40% á einu ári,“ segir Ólöf. Þótt hún telji vöxtinn vera af hinu góða og uppganginn í ferðaþjónustunni vera fagnaðarefni sé alveg ljóst að þessu fylgi einnig áskoranir.

Ekki bara samfélag íbúa

„Þetta er ekkert einfalt mál, það er mörg verk að vinna og við höfum einmitt talað um það að við þurfum kannski að fara að gera okkur grein fyrir því að okkar samfélagsgerð í rauninni er að breytast; úr því að vera samfélag íbúa í það að vera samfélag íbúa og tímabundinna íbúa,“ segir Ólöf. Þessir tímabundnu íbúar, ferðamenn sem hingað koma sem gestir, leggi ýmislegt til samfélagsins en á sama tíma hafi þeir líka þarfir og taka þurfi mið af því í ríkari mæli.

„Vextinum fylgja auðvitað margvíslegar áskoranir og þær verða ekki minni vegna þess hve ör hann er og á þeim áskorunum þurfum við að taka,“ útskýrir Ólöf.

Íslendingar njóti góðs með beinum hætti

„Ferðaþjónustan hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á okkar efnahag og atvinnuþróun á landinu,“ bætir Ólöf við. Hún segir fjölda starfa hafa skapast í greininni, bæði hefðbundin störf og einnig önnur ný og spennandi sem skapað hafa tækifæri sem áður voru ekki til staðar.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.

Ólöf telur jafnframt mikilvægt að hafa í huga að Íslendingar sjálfir njóti góðs af þeirri uppbyggingu sem hefur verið í kringum ferðamennskuna, bæði hvað varðar tækifæri Íslendinga til ferðalaga erlendis og hvað varðar aukið þjónustustig í landinu, hvort heldur sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Hún segir gríðarlega mikilvægt að ferðaþjónustan þróist í sátt við samfélagið og miklu máli skipti að sem gestgjafar taki Íslendingar vel á móti ferðamönnum, rétt eins og Íslendingar vilja eiga von á að tekið verði á móti þeim þegar þeir ferðist til annarra landa. „Þegar við förum til útlanda, þá höfum við væntingar um það að við séum að heimsækja fólk líka, ekki bara staði,“ útskýrir Ólöf.

Almenn lífsgæði að geta ferðast

En hvaðan kemur þessi gríðarlegi áhugi á Íslandi? Vissulega eru það margir samverkandi þættir sem hafa áhrif en að sögn Ólafar er það hluti af mannlegu atferli að vilja ferðast. „Það er kannski ekki hægt að skýra það með einhverju einföldu eða benda á eitthvað eitt,“ segir Ólöf. Ferðum fólks um heiminn fjölgar ört og fólk um allan heim ferðast nú sem aldrei fyrr að sögn Ólafar. „Æ stærri hluti af mannkyni lítur á þetta sem hluta af sínum almennu lífsgæðum, að geta ferðast á milli landa.“

Hún segir áhuga fyrir landinu alltaf hafa verið til staðar og hefur markaðssetning spilað vel á alþjóðlega þróun. Aukið framboð í flugsamgöngum og áhrif íslenskra flugfélaga sem unnið hafa gríðarlega öflugt markaðsstarf sé til að mynda nokkuð sem ekki megi vanmeta. Þá er ferðamynstur fólks að breytast og ferðamenn vilja í auknum mæli ferðast sjálfstætt og upplifa ævintýri með öðrum hætti. Þar passi Ísland vel inn í þá ímynd sem fólk hefur af sínum ferðalögum.

Íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men hefur átt góðu gengi …
Íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men hefur átt góðu gengi að fagna erlendis. mbl.is/Árni Sæberg

Loks má vissulega nefna þá þætti sem helst hefur verið bent á að spili inn í svo sem íslenska náttúran og einstaka atburðir á borð við eldgos, ösku, efnahagshrun og fótbolta sem vakið hafa athygli á landinu. Þá hafa íslenskir listamenn sem notið hafa hylli á erlendri grundu einnig lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á landi og þjóð.

„Það er alla vega ekkert sem bendir til þess að hér verði einhver mikil niðursveifla í ferðaþjónustu á næsta ári,“ segir Ólöf að lokum. Gott væri þó ef aðeins betra jafnvægi kæmist á þennan mikla vöxt svo unnt sé að aðlaga innviðina í takt við aukinn fjölda ferðamanna.     

Nánari umfjöllun mbl.is um fjölgun ferðamanna á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert