Þykir þetta ekkert óeðlilegt

Lögfræðistofan Mossack Fonseca í Panama sá um aflandsfélög fyrir þúsundir …
Lögfræðistofan Mossack Fonseca í Panama sá um aflandsfélög fyrir þúsundir einstaklinga og fyrirtækja um allan heim. AFP

Síðasti fundur starfshópsins var haldinn um miðjan september og þá vorum við komin með skýrsluna í aðalatriðum eins og hún var.“ Þetta segir Sigurður Ingólfsson, formaður starfshóps sem vann skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

Fram kemur á vefsíðu Ríkisútvarpsins að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi fengið sérstaka kynningu á skýrslunni 5. október. Starfshópurinn hafi skilað skýrslunni til fjármála- og efnahagsráðuneytis 13. september og þar með lokið störfum.

„Enda kom í ljós að meiri tíma þurfti til verksins en ætlað var í upphafi og tókst ekki að skila skýrslu fyrr en nokkuð var liðið á september,“ stendur á blaðsíðu 15 í skýrslunni en upphaflega var ætlunin að klára vinnu við skýrsluna síðasta sumar. „Við ætluðum að skila skýrslunni fyrr og það var talsverð pressa á okkur að gera það,“ segir Sigurður.

Bjarni Bene­dikts­son hafnaði því í gær að skýrslunni hafi með ein­hverj­um hætti verið haldið leyndri. „Ég vísa því algjörlega á bug að henni hafi með einhverjum hætti verið haldið leyndri, það er bara ekki þannig,“ sagði Bjarni meðal annars.

Frétt mbl.is: „Ég vísa því algjörlega á bug“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tímasetning á forsíðu falin

Hægt er að nálgast skýrsluna í gegnum hlekk á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar má sjá að textinn „september 2016“ á forsíðu hefur verið hvíttaður, þannig að hann sést ekki nema textinn sé afritaður í annað ritforrit, á borð við Microsoft Word.

„Er verið að vísa til þegar starfshópurinn leggur fram útgáfu sína eða þegar búið er að prófarkalesa í ráðuneyti eða þegar búið er að kynna hana fyrir ráðherra og ríkisstjórn? Það er spurning hvernig á að túlka þetta,“ segir Sigurður. Bendir hann á að mánaðaheitið hafi ekki lengur átt við. 

„Fjallað var um skýrsluna í október og hún gefin út í janúar og þá átti það ekki lengur við og því eytt. Mér finnst það ekkert óeðlilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert