Kuldakastinu lýkur á sunnudag

Ný langtímaspá bendir til þess að kuldakastinu ljúki á sunnudag en þá verði komin sunnanátt með hlýnandi veðri. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru hálkublettir á Hellisheiði  og í Grafningi en annars eru vegir að heita má auðir um allt sunnanvert landið.

Hálka er á Holtavörðuheiði en snjóþekja á Bröttubrekku, Vatnaleið, Fróðárheiði og Svínadal.

Sums staðar á Vestfjörðum er mjög hvasst og víða nokkur ofankoma. Hálsarnir í A-Barðastrandarsýslu eru ófærir, Þröskuldar og Steingrímsfjarðarheiði sömuleiðis. Þæfingsfærð er á Mikladal og verið er að moka Hálfdán. Hálka og snjóþekja er á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en stórhríð á Gemlufallsheiði.

Á Norðurlandi er ýmist éljagangur eða snjókoma og víða nokkur hálka eða snjóþekja á vegum. Stórhríð er í Öxarfirði og á Melrakkasléttu, og ófært um Hófaskarð og Hálsa. Sama er að segja um Fjöllin, það er ófært og stórhríð á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði. Snjóþekja er á Fjarðarheiði og Fagradal en Oddsskarð er ófært.

„Nú er 970 mb lægð á austurleið skammt suður af landinu og veldur hún norðaustan hvassviðri eða stormi um mestallt land. Snjókoma eða slydda norðan- og austanlands með erfiðum akstursskilyrðum eða jafnvel ófærð. Gott er að hafa í huga hið fornkveðna, að það er verra veður á fjallvegum en á láglendi. Sunnan til á landinu rofar til og ætti að sjást eittvað til sólar í dag. Það dregur smám saman úr vindi og ofankomu seinnipartinn, einungis kaldi eða strekkingur í kvöld og él fyrir norðan og austan.

Fjöllin á Íslandi geta ýmist skýlt fyrir vindi eða magnað hann upp. Í því sambandi má nefna að stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins verður í skjóli í dag og þar verður því ekkert óveður.
Á morgun nálgast fleiri lægðir landið, en þeim gengur illa að koma sér saman um hver eigi að ráða veðrinu. Það má segja að myndist millibilsástand sem þýðir það að vindur verður lengst af hægur á morgun, en snjómugga gerir vart við sig í flestum landshlutum.

Á miðvikudag og fimmtudag er útlit fyrir að deilan leysist, lægð fyrir austan land tekur völdin og möguleiki er á að berist til okkar mjög kalt loft beint norðan úr Íshafinu. Þá gætu tveggja stafa frosttölur látið sjá sig á mælum, en slíkt hefur verið sjaldgæft í vetur. Eins og svo oft í norðanáttinni, þá snjóar á norðanvert landið, en bjart syðra.
Nýjasta langtímaspá kom í hús nú á sjöunda tímanum og samkvæmt henni er útlit fyrir að kuldakastinu sé lokið á sunnudaginn því þá verði komin sunnanátt og hlýni á landinu,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Norðaustan og norðan 15-23 m/s um mestallt land með morgninum. Rofar til um landið sunnanvert, en snjókoma annars staðar, talsverð norðaustan til. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu seinnipartinn og kólnar, norðan 5-13 seint í kvöld með éljum fyrir norðan og austan og frosti um allt land.
Yfirleitt fremur hægur vindur á landinu á morgun, en dálítil snjókoma eða él í flestum landshlutum. Fer aftur að bæta í vindinn annað kvöld.

Á þriðjudag:

Suðvestan 5-13 m/s sunnanlands, annars hægari vindur. Dálítil snjókoma eða él í flestum landshlutum. Líkur á hvassri norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum um kvöldið. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust með suðurströndinni.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Ákveðin norðanátt með éljum norðan- og austanlands, en yfirleitt léttskýjað sunnan heiða. Frost 3 til 13 stig.

Á föstudag:
Hæg breytileg átt, en norðvestan 8-13 austast framan af degi. Skýjað með köflum og stöku él á suðvestanverðu landinu og einnig á norðausturhorninu. Léttskýjað með köflum í öðrum landhlutum. Mjög kalt í veðri.

Á laugardag:
Suðlæg átt og þykknar upp með dálítilli snjókomu og síðar rigningu og hlánar. Þurrt norðan- og austanlands og minnkandi frost.

Á sunnudag:
Sunnanátt með súld eða rigningu, en þurrt um landið norðaustanvert. Hiti 3 til 8 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert