Sjálfstæðismenn samþykktu sáttmálann

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundinum í kvöld.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundinum í kvöld. mbl.is/Golli

Stjórnarsáttmáli fyrirhugaðrar ríkisstjórnar var einróma samþykktur á fundi flokksráðs Sjálfstæðisflokksins að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, en fundi ráðsins lauk nú skömmu eftir klukkan níu. „Á fundinum var alveg einróma samþykkt að ganga til þessa stjórnarsamstarfs og almenn ánægja með það að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í og leiði ríkisstjórn eftir þessar kosningar.“

Bjarni sagðist hafa gefið sér góðan tíma til þess að fara yfir aðdragandann, niðurstöður kosninganna, stjórnarmyndunartilraunir og síðan niðurstöðuna núna. Spurður hvort hann sæi fram á erfitt kjörtímabil með eins manns meirihluta sagði hann: „Það er augljóslega mikil áskorun en ég geng til þeirra áskorunar bara bjartsýnn.“ Til þess að samstarfið gengi yrði að gera málamiðlanir og leita sátta. Hins vegar yrði líka að rísa undir væntingum kjósenda sem væru miklar um að stefnumálum Sjálfstæðisflokksins yrði fundinn farvegur.

Spurður um ráðuneyti sagði Bjarni að sjálfstæðismenn hefðu áður kallað eftir sérstöku dómsmálaráðuneyti en það yrði svo önnur ákvörðun hvort sérstakur ráðherra yrði settur yfir það. Hvað ráðherramálin sjálf varðaði myndi hann ræða það í þingflokki sjálfstæðismanna annað kvöld. Spurður um stjórnarsáttmálann sagði Bjarni hann nokkuð víðfeðman og þar væri að finna ágætisjafnvægi á milli flokkanna. Sáttmálinn yrði kynntur á morgun.

Spurður hvort það væri áhyggjuefni að fulltrúar á landsbyggðinni hefðu hugsanlega ekki komist á fundinn vegna skamms fyrirvara sagði Bjarni: „Við reyndum að gefa eins mikinn fyrirvara og aðstæður leyfðu. Við höfum ekki fengið mikið af kvörtunum vegna þessa en það er alltaf reynt að taka tillit til þessa og meðal annars þess vegna höfðum við fundinn að kvöldi til í dag.“ Spurður hvort margir hafi tekið til máls til þess að gagnrýna sáttmálann sagði Bjarni aðeins tvo hafa gert það en almennt hafi komið fram ánægja með niðurstöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert