Búin að pakka og ganga frá

Eygló Harðardóttir, fráfarandi félags- og húsnæðimálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, fráfarandi félags- og húsnæðimálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Þetta eru ákveðin tímamót. Ég er búin að pakka og ganga frá á skrifstofunni, og hlakka til að takast á við ný verkefni í stjórnarandstöðu. Mér sýnist að það verði nóg að gera fyrir okkur í stjórnarandstöðu,“ segir Eygló Harðardóttir, fráfarandi félags- og húsnæðismálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Spurð út í úrslit þingkosninganna og þær breytingar sem eru að eiga sér stað á stjórnarheimilinu, en í dag verður kynnt ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, segir Eygló að enginn geti sagt að það hafi verið kallað eftir þessari ríkisstjórn frekar en einhverri annarri. „En þetta er niðurstaða og við vinnum út frá henni. Við í Framsóknarflokknum munum takast á við ný verkefni í stjórnarandstöðu og förum af fullum krafti í það.“

Allt komið í kassa eða poka. Svona er umhorfs á …
Allt komið í kassa eða poka. Svona er umhorfs á skrifstofu fráfarandi félagsmálaráðherra. Ljósmynd/Eygló Harðardóttir

Hörð en málefnanleg stjórnarandstaða

Aðspurð segir Eygló að Framsókn muni verða hörð en málnefnanleg í stjórnarandstöðu. „Það hefur sýnt sig að stjórnarandstaðan hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Og málin verða betri þegar stjórnarandstaðan vinnur sína vinnu.“

Þegar Eygló er beðin um að koma með ráðleggingar fyrir eftirmann sinn í velferðarráðuneytinu segir hún: „Þetta eru mikilvægir málaflokkar. Það skiptir miklu máli, hver svo sem kemur inn, að huga vel að þessum mikilvægu verkefnum. Ég er alveg sannfærð um það að sama hver það verður að þá leggur fólk upp með það að vanda sig, og ég vona að svo verði.“

Varðandi framhaldið, segir Eygló að hún muni brátt hefja undirbúning að þeim þingmálum sem hún muni leggja fram þegar þingið kemur saman.

„Ég hef mikinn áhuga á að huga áfram að málum sem snúa að fjölskyldunni og málefnum aldraðra. Ég mun að sjálfsögðu huga áfram að húsnæðismálum. Það sem er hins vegar svo skemmtilegt við það þegar maður er kominn í stjórnarandstöðu, er að maður getur farið inn í málaflokka sem heyra undir aðra ráðherra. Þannig að það verður spennandi að fást við þessi verkefni,“ segir Eygló að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert