Ellefu lyklar skiptu um hendur

Lilja Alfreðsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Lilja Alfreðsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Golli

Ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar fengu afhenta lykla að ráðuneytum sínum í dag. Ljósmyndarar mbl.is voru á staðnum til að fanga augnablikin.

Tilkynnt var um ráðherraskipan í gærkvöldi að loknum þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sjálfstæðismenn fá sex ráðherra, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. 

Bjarni Bendediktsson var fyrstur í röðinni. Hann tók við lykli, eða réttara sagt „nútímalykli“, að forsætisráðuneytinu úr höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert

Þeir tveir störfuðu saman í síðustu ríkisstjórn en þá var Bjarni fjármálaráðherra. Bjarni sagði að Sigurður Ingi hefði sem forsætisráðherra setið djúpt í hnakkinum eins og góður hestamaður og að hann gæti dregið mikinn lærdóm af honum.

Frétt mbl.is: „Hefur setið djúpt í hnakkinum“

Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson.
Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson. mbl.is/Árni Sæberg

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tók skömmu síðar við lyklinum að fjármálaráðuneytinu úr höndum frænda síns Bjarna Benediktssonar.

Kristján Þór Júlíusson og Óttarr Proppé.
Kristján Þór Júlíusson og Óttarr Proppé. mbl.is/Eggert

Í velferðarráðuneytinu afhenti Kristján Þór Júlíusson Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar og nýjum heilbrigðisráðherra, sinn lykil. Óttarr gaf Kristjáni Þór í staðinn bók eftir Gyrði Elíasson og sagði að hann gæti tekið hana með sér inn í nýtt starf sem mennta- og menningarmálaráðherra.

Frétt mbl.is: Telur í og fer svo af stað

Þorsteinn Víglundsson og Eygló Harðardóttir.
Þorsteinn Víglundsson og Eygló Harðardóttir. mbl.is/Eggert

Skammt frá tók Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, við lykli að félagsmálaráðuneytinu úr höndum Eyglóar Harðardóttur. Eygló óskaði Þorsteini velfarnaðar í starfi og sagði að hann þekkti vel til málaflokksins en hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Frétt mbl.is: Óskaði Þorsteini velfarnaðar í starfi

Kristján Þór Júlíusson og Illugi Gunnarsson.
Kristján Þór Júlíusson og Illugi Gunnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Næst var röðin komin að Kristjáni Þór Júlíussyni að fá lyklavöldin sem mennta- og menningarmálaráðherra og var það Illugi Gunnarsson sem annaðist afhendinguna.

Jón Gunnarsson og Ólöf Nordal.
Jón Gunnarsson og Ólöf Nordal. mbl.is/Árni Sæberg

Ólöf Nordal afhenti Jóni Gunnarssyni lykilinn að skrifstofu samgönguráðherra. Jón sagði í samtali við mbl.is í gær að tíu ára þingreynsla hans ætti eftir að nýtast honum vel í starfinu.

Frétt mbl.is: Tíu ára þingreynsla gott veganesti

Sigríður Á. Andersen og Ólöf Nordal.
Sigríður Á. Andersen og Ólöf Nordal. mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Á. Andersen tók við lyklinum að dómsmálaráðuneytinu, einnig úr höndum Ólafar Nordal. 

Gunnar Bragi Sveinsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Gunnar Bragi Sveinsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Golli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við lykli að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu úr höndum Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Golli

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar og afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttir henni lykilinn að ráðuneytinu.

Björt Ólafsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir.
Björt Ólafsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, fékk lykilinn að ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála úr höndum Sigrúnar Magnúsdóttur.

Icesave-bollinn sem Guðlaugur Þór fékk að gjöf.
Icesave-bollinn sem Guðlaugur Þór fékk að gjöf. mbl.is/Golli

Loks var það Guðlaugur Þór Þórðarson sem fékk lykilinn að utanríkisráðuneytinu hjá Lilju Alferðsdóttur. Guðlaugur hlaut einnig að gjöf forláta Icesave-bolla frá Lilju. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert