Fengu annan úr Panamaskjölum í staðinn

Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, ásamt Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni hans, …
Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, ásamt Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni hans, og Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, við undirritun stjórnarsáttmálans í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vefsíða bandaríska dagblaðsins The Washington Post greinir frá því að Íslendingar hafi bolað í burtu Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni úr embætti forsætisráðherra vegna tengsla hans við aflandsfélag í Panama en í staðinn fengið annan forsætisráðherra sem einnig hafi komið við sögu í Panamaskjölunum.

„Aðeins tveimur dögum eftir að tilkynnt var um lekann á Panamaskjölunum sagði forsætisráðherann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson af sér. Í skjölunum kom fram að eiginkona hans átti aflandsfélag sem tengdist bönkum sem féllu. Það er viðkvæmt mál í landi sem var á bjargbrúninni í efnahagskreppunni árið 2008,“ segir í grein The Washington Post.

„Þúsundir manna fóru út á götur og kröfðust þess að Gunnlaugsson viki úr embætti. Talið er að allt að 6,6% íslensku þjóðarinnar hafi tekið þátt í mótmælunum. Núna, rúmum níu mánuðum eftir að Panamaskjölin voru gerð opinber og tveimur mánuðum eftir snarpar kosningar, hafa Íslendingar loksins fengið staðgengil fyrir Gunnlaugsson. En þrátt fyrir mótmælin í apríl var nýi forsætisráðherrann einnig nefndur í Panamaskjölunum.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Í greininni kemur fram að Bjarni Benediktsson hafi neitað að segja af sér, þrátt fyrir að sumar skoðanakannanir hafi bent til þess að meirihluti almennings hafi viljað það.

Í framhaldinu var talið að eins konar uppreisn gegn kerfinu yrði á Íslandi og virtist Pírataflokkurinn líklegur til að vinna kosningarnar. Það hafi aftur á móti ekki gerst því þeir fengu helmingi færri atkvæði en Sjálfstæðisflokkurinn.

Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son for­ystu­menn nýrr­ar rík­is­stjórn­ar.
Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son for­ystu­menn nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. mbl.is/Eggert

Vefsíða breska ríkisútvarpsins, BBC, greinir frá því að nýja ríkisstjórnin hér á landi ætli að setja spurninguna um aðild að Evrópusambandinu aftur á dagskrá með því að láta þingið kjósa um hvort haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina.

Þar kemur fram að kosning Breta um áframhaldandi aðild að ESB, Brexit, hafi ýtt undir aðrar leiðir til að eiga viðskipti við þjóðir Evrópusambandsins, líkt og gert hefur verið á Íslandi.

Reuters segir einnig frá því fyrirsögn að Íslendingar ætli að spyrja þingið hvort halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert