Segir mun á stöðu Sigmundar og Bjarna

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir að aðstæður séu allt aðrar nú en þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson neyddist til að segja af sér eftir að í ljós kom að nafn hans var í Panama-skjölunum. Nafn núverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, var einnig í áðurnefndum skjölum.

Rætt var við formenn ríkisstjórnarflokkanna í Kastljósi á Rúv í kvöld.

„Það er kannski aðallega það að þessi ríkisstjórn er mynduð eftir kosningarnar í október þar sem var mikið rætt um Panama-skjölin. Allar upplýsingar um frambjóðendur í þeim kosningum lágu fyrir og úrslit kosninganna skiluðu þeirri niðurstöðu sem við erum búin að reyna að vinna úr í á þriðja mánuð; allir flokkar á þingi að reyna að ná saman um starfhæfa ríkisstjórn,“ sagði Óttarr í Kastljósi.

„Það er talsverður munur á því þegar fyrrverandi forsætisráðherra leyndi því að hann væri í Panama-skjölum og reyndi svo að snúa sig út úr því opinberlega á miðju kjörtímabili. Það var í raun og veru ákveðinn forsendubrestur. Það er búið að kjósa og niðurstaða þeirra kosninga liggur fyrir og það er búið að taka okkur 10-11 vikur að púsla saman mjög góðri og væntanlega farsælli ríkisstjórn,“ bætti Óttarr við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert