Lónið allt verði innan Vatnajökulsþjóðgarðs

Björt Ólafsdóttur tók við lyklavöldum í Umhverfisráðuneytinu af Sigrúnu Magnúsdóttur …
Björt Ólafsdóttur tók við lyklavöldum í Umhverfisráðuneytinu af Sigrúnu Magnúsdóttur í gær. Nýr ráðherra fagnar því að komið sé á hreint að ríkið geti nýtt forkaupsrétt sinn að jörðinni Fell við Jökulsárlón. mbl.is/Árni Sæberg

Björt Ólafsdóttir, nýr umhverfisráðherra, fagnar því að það sé komið á hreint að ríkið geti nýtt forkaupsrétt sinn að jörðinni Fell ivið Jökulsárlón, sem komist þar með í eigu almennings. „Þá geta þau áform sem uppi hafa verið um að taka þetta svæði og setja undir Vatnajökulsþjóðgarð orðið að veruleika,“ segir Björt.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að vegna klúðurs hjá sýslu­mann­in­um á Suður­landi og fjár­málaráðuneyt­inu væru lík­ur á því að ríkið hafi keypt jörðina eft­ir að frest­ur til þess rann út, sem gæti orðið til þess að það geti ekki eign­ast jörðina. Í tilkynningu frá Sýslumanninum á Suðurlandi, sem send var á fjölmiðla um hádegi í dag kemur fram að fresturinn hafi ekki verið runnin út. Meg­in­regla sé að for­kaups­rétt­ur verði ekki virk­ur fyrr en bind­andi samn­ing­ur kemst á milli eig­anda for­kaups­rétt­ar­ og kaup­anda. 

„Við erum þá vonandi að horfa til þess að sá einstaki atburður sé að eiga sér stað að við Íslendingar fáum þjóðgarð alveg frá fjalli til fjöru, sem er mjög einstakt og ég vona svo sannarlega að þessi áform öll nái að ganga fram,“ segir Björt. 

Vonar að lónið allt verði innan þjóðgarðsins 

Unnið er að slíkum áformum í Umhverfisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum. „Sú samvinna verður að halda áfram og ekki hvað síst í samvinnu við sveitarfélagið. Ég veit ekki betur en að það samtal allt hafi verið gott og svo verður vonandi áfram.“

Björt segir flókið eignarhald á Felli hafa staðið uppbyggingu á svæðinu fyrir þrifum, en nú opnist miklir möguleikar á öflugri uppbyggingu á því svæði sem deiliskipulag heimilar framkvæmdir á. 

Björt framtíð hefur talað fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs á Íslandi og kveðst ráðherra vona að Vatnajökulsþjóðgarður verði aðeins fyrsta skrefið í slíku ferli. „Við tökum bara eitt skref í einu, en vonandi verður þetta til þess að Vatnajökulsþjóðgarður verður stækkaður þannig að lónið allt verði innan hans og líka sá hluti hans sem er núna þjóðlenda,“ segir hún og kveðst ekki eiga von á öðru en að svo verði.

Stofnun miðhálendisþjóðgarðs sé hins vegar stærra verkefni, sem krefjist víðtækari samvinnu um önnur svæði á hálendinu sem vilji sé til að vernda sérstaklega.

Skoðar græna skatta með starfsfólki ráðuneytisins

Unnið er að því að koma Vatnajökulsþjóðgarði á heimsminjaskrá og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í janúar á næsta ári. Björt telur líklegt að landsvæðið sem ríkinu gefst nú færi á að kaupa verði hluti af þeirri skráningu. „Það er unnið hér í ráðuneytinu að því að flytja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá Unesco. Hann færi þá allur inn ef þessi áform ganga eftir og það er þá virkilega flott markmið að stefna að.“ 

Ráðherra hefur talað fyrir grænum gjöldum og kveðst Björt þar eiga við græna hvata, eða skatta sem lagðir eru á til að hvetja til hegðunar sem m.a. auki umhverfisvitund og minnkar útblástur.

„Það er hægt að beita þessum hvötum á ýmsan hátt. Nú er ég að fara yfir það með mínu ráðuneytisstarfsfólki hvað það hefur séð fyrir sér í þessum efnum og hvernig við getum gert þetta á breiðum grundvelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert