Millidómstigið og löggæslan brýn mál

Sigríður Á. Andersen og Össur Skarphéðinsson bregða á leik.
Sigríður Á. Andersen og Össur Skarphéðinsson bregða á leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það liggur auðvitað fyrir að eitt stærsta verkefni dómsmálaráðuneytisins á þessu ári er að ljúka við undirbúning og hrinda úr vör nýju millidómstigi; landsrétti. Það er komið í alveg ágætan farveg hjá henni Ólöfu [Nordal] þannig að ég mun bara setja mig strax inn í það.“

Þetta segir Sigríður Á. Andersen, nýskipaður dómsmálaráðherra, um þau verkefni sem eru henni efst í huga nú þegar hún tekur við ráðuneytinu.

Ný lög um dómstóla, sem samþykkt voru í júní sl., taka gildi 1. janúar 2018 en þau kveða m.a. á um hið nýja millidómstig og nýja sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna; dómstólasýsluna.

Sigríður segir ekki hægt að útiloka að bregðast verði við ágöllum sem kunna að koma í ljós við útfærslu laganna.

„Það er mikilvægt að það sem kemur út úr þessu að lokum sé eitthvað sem allir eru sáttir við og að það virki. Við höfum nægan tíma til að bregðast við ef það eru einhverjir vankantar á málinu eins og við lögðum upp með það,“ segir hún.

En af hverju er nýtt millidómstig nauðsynlegt að hennar mati?

„Það hefur verið gagnrýnt að þegar málum er áfrýjað þá hafi þau ekki hlotið fullkomna endurskoðun á æðra dómstigi. Þá hafa menn til dæmis vísað í refsimálin, þar sem sönnunarfærsla hefur ekki farið fram fyrir Hæstarétti og Hæstiréttur byggir á sönnunarfærslu fyrir lægra settum dómstól,“ svarar Sigríður.

„Þetta hafa menn gagnrýnt og í raun allir; menn hafa alveg viðurkennt að þetta sé ekki heppilegt, að það sé æskilegt að það séu hér tvö dómstig þar sem menn hafa tök á að fá fulla endurskoðun, þ.e. málsmeðferð.“

Sigríður segir eitt verkefnið sem bíður snúa að því hvar landsréttur verður til húsa.

Dómsmálaráðherra segir kallað eftir eflingu löggæslunnar.
Dómsmálaráðherra segir kallað eftir eflingu löggæslunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spurð að því hvort hún telji að fjaðrafokið sem varð í desember sl. vegna hagsmunatengsla hæstaréttardómara sé eitthvað sem kallar á skoðun af hálfu dómsmálaráðherra, segist Sigríður ekki hafa velt því fyrir sér.

„Nú tóku menn það bara föstum tökum sjálfir, dómstólarnir. Og ég bjóst ekki við öðru þegar umræðan kom upp. Ég held að hvað Hæstarétt varðar hafi það nú bara tekist prýðilega finnst mér,“ segir ráðherrann.

„Aðalatriðið er að menn séu sammála um að það þurfi að vera hafið yfir allan vafa að dómarar eigi ekki einhverra hagsmuna að gæta þegar þeir dæma í málum. Það er enginn ágreiningur um það, held ég, meðal dómara.“

Fréttaflutningur mbl.is: Hagsmunir dómara

Hagsmunatengsl hæstaréttardómara kalla ekki á sérstaka athugun ráðherra, að mati …
Hagsmunatengsl hæstaréttardómara kalla ekki á sérstaka athugun ráðherra, að mati Sigríðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað varðar önnur mál sem bíða hennar í dómsmálaráðuneytinu nefnir Sigríður löggæslumálin en hún segir augljóst að kallað sé eftir því að frekar stoðum verði rennt undir löggæsluna.

„Einkum og sér í lagi að það verði brugðist við þörfinni þar sem hún er. Það getur auðvitað líka verið árstíðabundið, og annað. Þannig að ég tel einboðið að það verði skoðað, þannig að eftirspurninni sé svarað með framboði á réttum stöðum og á réttum tíma. Og þetta er auðvitað í samhengi við aukinn straum ferðamanna og úrbætur sem lúta að því. En þetta tengist allt og kemur svo sem inn á mörg ráðuneyti,“ segir Sigríður.

Dómsmálaráðherrann hefur ekki valið sér aðstoðarmenn, enda nóg að gera.

„Ég er bara að pakka hérna á skrifstofunni á Alþingi. Ég átti fund með starfsmönnum ráðuneytisins í gær og þar er góður hópur af fólki. Og ég ætla að fara á eftir og ræða nánar við fólkið og átta mig á verkefnunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert