Starfsemi Hringrásar liggur enn niðri

Hringrás vinnur meðal annars að endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna.
Hringrás vinnur meðal annars að endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna. mbl.is/Ómar

Tímabundin stöðvun á starfsemi Hringrásar á Reyðarfirði er enn í gildi. Að sögn Kristjáns Ólafssonar, framkvæmdastjóra Hringrásar, er unnið að úrbótum. „Við munum halda áfram starfsemi þarna þó óbeint verði.“

Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina 21. desember síðastliðinn, þar sem enginn starfsmaður sinnti móttöku spilliefna.

Frétt mbl.is: Stöðvaði starfsemi Hringrásar

„Þessi stöðvun gildir ennþá af okkar hálfu. Það er bara lokað og engin starfsemi í gangi,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri í eftirlitsteymi hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is.

Að sögn Sigríðar fylgist Heilbrigðiseftirlit Austurlands með gangi mála.

„Það var samkomulag við heilbrigðiseftirlitið á staðnum um að þeir myndu bara hafa lokað þar til þeir væru komnir með einhverja úrbótaáætlun, sem þeir gerðu.“

Kristján  segist vera sammála Umhverfisstofnun um að það hefði þurft að stöðva starfsemina á Reyðarfirði.

„Það var nú eiginlega sjálflokað því portið þarna er orðið fullt. […] Við erum í samningaviðræðum við aðila á svæðinu um áframhaldandi móttöku á efni þannig að það er allt í bígerð og á góðri leið.“ 

Kristján segist búast við því að hægt verði að hefja starfsemi að nýju á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert