Tré felld vegna flugöryggis

Fella þarf um 130 grenitré.
Fella þarf um 130 grenitré. mbl.is/Árni Sæberg

Fella þarf hæstu trén á tilteknu flugöryggisvæði yfir Öskjuhlíð. Trén verða felld á næstu vikum en nýr trjágróður verði gróðursettur í stað trjánna sem felld verða. Trjástofnarnir verða notaðir í byggingu hofs Ásatrúarsafnaðarins.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en trén verða felld því þau hafa vaxið upp í hindrunarflöt á flugbraut 13/31 samkvæmt áhættumati Isavia og samkomulagi um innanlandsflug frá 25. október árið 2013.

Samkvæmt greiningu sem gerð var þarf að fella um 130 grenitré. Skógurinn er ekki eingöngu vaxinn greni en fella þarf hæstu grenitrén á því svæði sem um ræðir. Annar lægri trjágróður verður eftir.

Tekið er fram að öllu raski í Öskjuhlíðinni verður haldið í lágmarki og umferð tækja verður takmörkuð eins og hægt er. Gætt verður sérstaklega að öryggi gesta bæði á meðan verki stendur og eftir vinnutíma.

ISAVIA ræður verktaka sem fellir trén, fjarlægir þau og kurlar hluta af þeim en Reykjavíkurborg mun hafa eftirlit með verkinu. Áætluð verklok eru um miðjan mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert