„Enn ákveðin stjórnarkreppa“

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það mætti segja að það sé enn ákveðin stjórn­ar­kreppa,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Sagði hún ríkisstjórnarflokkana augljóslega ekki hafa náð að koma sér saman um mörg stór mál, sem sýni sig í því hversu almennt orðaður stjórnarsáttmálinn sé.

Svandís var gest­ur í þætt­in­um hjá Önnu Krist­ínu Jóns­dótt­ur ásamt Gunn­ari Braga Sveins­syni, þing­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins, og Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Málefnaleg samstaða ekki fyrir hendi

„Þetta er orðað með svo opnum hætti. Það þarf að leiða þessi álitamál til lykta áður en við förum að sjá stjórnarfrumvörp því annars erum við að horfa á pattstöðu. Þessi málefnalega samstaða er ekki fyrir hendi,“ sagði Svandís.

Páll var ósammála Svandísi og sagði að sama hvaða flokkar hefðu náð saman þá hefðu stjórnarsáttmálar þessara flokka verið orðaðir að megninu til eins. „Það eru allir sammála um þau mál sem eru í forgangi og að setja heilbrigðiskerfið í fyrsta sæti. Vinstri grænir hefðu viljað hækka skatta en þeir sem eru núna í stjórn sjá ekki ástæðu til þess,“ sagði hann. „En ég held að það sé ákveðinn kostur að hann sé almennt orðaður ekki síst vegna þess samráðs sem boðað er. Það væri misráðið að vera að negla niður hvernig útfærslan á ákveðnum atriðum á að vera. Ég held að við getum náð góðum árangri.“

Viðreisn hafi blekkt kjósendur

Svandís sagði hins vegar að aldrei hafi verið möguleiki að mynda stjórn gamla minnihlutans. Niðurstaða kosninganna hafi verið til hægri, auk þess sem ekki hafi náðst samstaða um stór mál. „Við gátum ekki náð saman því Viðreisn gat ekki hugsað sér þetta og ætluðu alltaf aftur í fangið á Sjálfstæðisflokknum því þetta eru allt Sjálfstæðismenn.“

Gunnar Bragi tók undir og sagði Viðreisn hafa blekkt kjósendur með því að segjast vera miðjuflokkur.

Minnihlutinn eigi rétt á formennsku í helmingi nefnda

Gunnar Bragi vék að formennsku í nefndum og því að minnihlutinn ætti samkvæmt lögum rétt á formennsku í hluta fastanefnda Alþingis. Svandís tók undir þetta og benti á að samkvæmt þingskaparlögum bæri að semja um formennsku í nefndir út frá þingstyrk. „Það ættu því að vera jafnmargir formenn í nefndir í minnihluta og meirihluta,“ sagði hún en benti á að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði talað um það að Sjálfstæðisflokkurinn fengi formennsku í fimm fastanefndum, Viðreisn í einni og minnihlutinn í tveimur. „Það ber að gera þetta á grundvelli kosninganna – og það er ekki einu sinni meirihluti kjósenda sem styður núverandi ríkisstjórn – en ekki á grundvelli þess að meirihlutinn reyni að fá allt.“

Bæði Svandís og Gunnar Bragi sögðust gera ráð fyrir að vera öflug í stjórnarandstöðu, enda væru flokkarnir vanir því að vera í minnihluta.

Loks var vikið að skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og sagði Svandís að sú staðreynd að Bjarni hefði setið á skýrslunni gæfi ástæðu til að ætla að núverandi ríkisstjórn væri ríkisstjórn auðmanna. Páll og Gunnar Bragi tóku undir að klaufalegt hefði verið að birta ekki skýrsluna, en að ekki skipti öllu máli hvar fólk geymdi peningana sína ef þeir væru gefnir upp og af þeim greiddir skattar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert