Hitaskilin hin fyrri

Von er á suðaustanstrekkingi og rigningu í dag.
Von er á suðaustanstrekkingi og rigningu í dag. mbl.is/Golli

Fyrri hitaskil lægðar við Hvarf ganga í dag yfir landið vestanvert með suðaustanstrekkingi og rigningu á láglendi við sjávarsíðuna en líklega verður slydda eða snjókoma viðvarandi inn til landsins fram eftir degi. Austan til er áfram útlit fyrir hæglætisveður, en þó nokkuð frost. 

Í kvöld heldur áfram að hlýna og líklega verður kominn bloti á öllu landinu snemma í fyrramálið. Þó úrkomulítið verði á norðaustanverðu landinu er ekki ólíklegt að eitt og eitt él fjúki norður yfir heiðar í dag, og eins gætu nokkrir dropar fallið á morgun.

Skilin sem ganga inn á morgun, þau seinni í þessu holli, koma yfir sunnan- og vestanvert landið með talsverðri rigningu en áfram er úrkomulítið á norðausturhorninu. Vindur gæti náð stormstyrk á nokkrum stöðum á landinu en óvíst er hvort úrkoman verði búin áður en snöggkólnar annað kvöld, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Hægt vaxandi suðaustanátt með rigningu og slyddu sunnan- og vestanlands en slyddu eða snjókomu inn til landsins í dag. Hægari vindur og talsvert frost norðaustan til en þykknar upp í dag og hlýnar smám saman. Dregur úr vindi og úrkomu í kvöld. Vaxandi sunnanátt á morgun, 13-23 m/s eftir hádegi, hvassast til fjalla á Norður- og Vesturlandi. Talsverð rigning en úrkomulítið á Austurlandi. Ört hlýnandi og hiti 5 til 12 stig, hlýjast norðan til. Snýst í hvassa suðvestanátt með éljum vestan til seint annað kvöld og kólnar hratt.

Á sunnudag:

Sunnan 15-23 m/s og talsverð rigning sunnan og vestan til, en hægari fram eftir degi og þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast norðanlands. Snýst í suðvestanátt með éljum síðdegis, fyrst á annesjum vestan til og kólnar.

Á mánudag:
Suðvestan 13-20 m/s og él, en heldur hægari vindur, þurrt og bjart austan til. Vægt frost síðdegis en frostlaust við suðurströndina.

Á þriðjudag:
Minnkandi suðvestanátt og él, en snjómugga norðvestanlands. Vaxandi suðaustanátt með slyddu eða rigningu og hlýnar undir kvöld en norðanstrekkingur, snjókoma og vægt frost norðvestan og vestan til.

Á miðvikudag:
Minnkandi norðvestanátt og ofankoma á Vestfjörðum og við norðurströndina. Hægari vestlæg átt annars staðar. Dálitlar skúrir eða él síðdegis en úrkomulítið austan til. Frost 0 til 8 stig en hiti um og yfir frostmarki við suðurströndina.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðlæga átt með slyddu eða snjókomu austan til og kólnandi veðri. Talsvert frost um kvöldið.

Á föstudag:
Líkur á vestanátt með éljum um vestanvert landið og minnkandi frosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert