Páll segir Bjarna hafa gert mistök

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Ég lít á þetta sem mistök en formaður flokksins er skynsamur maður og ég held að hann muni leiðrétta þetta,“ sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Vikulokunum á Rás 1 um ráðherraval Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins.

Páll var gestur í þættinum hjá Önnu Kristínu Jónsdóttur ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Framsóknarflokksins og Svandísi Svavarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna.

Lítilsvirðing við kjósendur í Suðurkjördæmi

Sagðist Páll ekki hafa geta greitt atkvæði með þessari ráðherraskipan enda hafi hún gengið á skjön við það lýðræðislega umboð sem þingmenn Suðurkjördæmis höfðu auk þess sem hún hefði verið lítilsvirðing við kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem vann stóran kosningasigur. „Þetta snýst ekki um mig sem persónu. Ég styð formann Sjálfstæðisflokksins og ég styð ríkisstjórnina,“ sagði Páll.

Spurður um það hvernig hann teldi formanninn geta leiðrétt þetta sagðist hann ekki frekar eiga von á uppstokkun, en að forystumaður í sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins ætti að sitja við ríkisstjórnarborðið þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. „Þetta er einfalt mál.“

Segist styðja ríkisstjórnina

Sagði hann að þrátt fyrir að Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, komi frá Suðurkjördæmi og oft væri rætt um forseta þingsins sem ráðherraígildi þá væri ekki um að ræða ráðherraígildi fyrir kjördæmið og kjósendur þess.

„Þetta er bara mín afstaða í þessu máli en ég styð ríkisstjórnina,“ sagði Páll. „Afstaða mín í þessu máli getur ekki gefið fólki von um að ég sé á móti ríkisstjórninni. Það er allt of mikið lesið í þetta.“

Þá sagðist Páll gera ráð fyrir að vera boðin formennska í einhverja af nefndum þingsins en hann hafi þó ekki enn fengið slíkt boð. 

Gunnar Bragi Sveinsson tók undir áhyggjur Páls af landsbyggðinni.
Gunnar Bragi Sveinsson tók undir áhyggjur Páls af landsbyggðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Augljóst að um jafnréttissjónarmið er að ræða

Gunnar Bragi tók undir með Páli og sagðist velta því fyrir sér hvernig væri hægt að ganga fram hjá tveimur oddvitum kjördæma sem náðu góðum árangri hjá flokknum í kosningunum, þ.e. Páli og Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sagðist hann velta því fyrir sér hvort með þessu verið væri að reyna að leysa vandamál innan flokksins með jafnrétti. „Án þess að tala niður til þessa fólks. Þarna eru allir bærir til að vera í sínum embættum,“ sagði hann en benti á að nær hefði verið að taka fyrr á þessum málum. „Þetta er mjög svekkjandi fyrir þessa menn sem lögðu líkama og sál sína í þessa kosningabaráttu og unnu góðan sigur.“

Svandís sagði augljóst að jafnréttissjónarmið væru eitt af því sem Bjarni Benediktsson hefði haft í huga, enda hefði staða kvenna innan flokksins alltaf verið veik. „Ekki síst vegna þess að sjálfstæðismenn hafa ekki viljað fara í aðgerðir til dæmis varðandi uppröðun á lista,“ sagði hún og benti á að þessi óánægja í baklandi flokksins væri veikleikamerki. „Það sama má segja um Bjarta framtíð þar sem þriðjungur greiddi gegn stjórnarsamstarfinu. Það mætti segja að það sé enn stjórnarkreppa,“ sagði hún.

Landsbyggðin eigi undir högg að sækja

Anna Kristín spurði Pál hvort hægt væri að tala um hagsmuni kjördæmis vegna ráðherraskipunar eða hvort það bæri ekki keim af gömlu kjördæmapoti. „Kjördæmi er partur af landinu og þjóðinni. Það er ekkert ljótt að gæta hagsmuna kjördæmis sem þú ert kjörinn fyrir,“ sagði Páll þá og bætti við að landsbyggðin ætti undir högg að sækja. Þegar litið væri á bakgrunn nýskipaðra ráðherra mætti sjá að níu þeirra væru frá höfuðborgarsvæðinu og tveir utan af landi.

Gunnar Bragi tók undir með áhyggjum Páls af landsbyggðin sem slík væri sett til hliðar þegar verið væri að velja til borðs. Svandís sagði ráðherra þó eiga að þjóna landinu öllu og að það þyrfti að forðast togstreitu á milli borgar og landsbyggðar.

Svandís Svavarsdóttir sagði augljóst að jafnréttissjónarmið væru eitt af því …
Svandís Svavarsdóttir sagði augljóst að jafnréttissjónarmið væru eitt af því sem Bjarni Benediktsson hefði haft í huga, enda hefði staða kvenna innan flokksins alltaf verið veik. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert