Samstaða í heilbrigðismálum

Heimir Már Pétursson, Benedikt Jóhannsson, Dagur B. Eggertsson og Óttarr …
Heimir Már Pétursson, Benedikt Jóhannsson, Dagur B. Eggertsson og Óttarr Proppé. Skjáskot af Stöð 2

Reykjavíkurflugvöllur endar á nýjum stað en nýr spítali rís við Hringbraut er meðal þess sem rætt var í þættinum Víglínan á Stöð 2 í dag. Borgarstjóri fagnar áherslum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og segir borgina reiðubúna í samstarf við stjórnvöld.

Efnahagsmálin voru einnig rædd og segir Benedikt Jóhannsson, fjármálaráðherra, að það verði að búa sig undir niðursveiflu því það sé ljóst að slík niðursveifla komi í kjölfar uppgangs. Benedikt var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni á Stöð 2 í hádeginu. Auk hans voru þeir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra gestir í þættinum.

Óttarr segir að það þurfi að horfa heildstætt á hlutina með samvinnu sveitarfélaga og ríkisins. Hann segir að það þurfi að skoða ferðaþjónustuna enda hafi hún gríðarleg áhrif. Það þurfi hins vegar að forðast það rugl sem var í gangi fyrir hrun þegar byggðar voru upp væntingar sem ekki stóðust. 

Dagur hefur áhyggjur af því að eftirlit með útleiguíbúðum (svo sem Airbnb) sé í höndum sýslumanna en annars staðar er eftirlitið í höndum borganna sjálfra. Hann sér fyrir sér að svo verði síðar á Íslandi. Airbnb hafi verið mjög tregt að gera samkomulag við borgir, til að mynda í hversu marga daga íbúð geti verið í þannig útleigu og fleira. 

Hann segir að það þurfi að gera margt í húsnæðismálum svo vel sé. Benedikt segir að það sé alvöru áhyggjumál hversu villt kerfið er í ferðaþjónustunni - hversu mikil svört starfsemin er. Hann sér fyrir sér náið samstarf ríkis og sveitarfélaga þar. 

Varðandi gistináttagjald segir Benedikt nauðsynlegt að hefja umræðuna sem fyrst en þetta sé viðkvæmt mál á sviði stjórnmálanna. 

Hægt sé að hækka gjaldið þar sem ágangur er mikill og lækka þar sem hægt er að fjölga ferðamönnum.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, segir Reykjavíkurflugvöll vera eitt af þeim málum sem er mikið að breytast. Sprengja í ferðaþjónustu hefur mikil áhrif á svo margt annað, svo sem samgöngur og heilbrigðiskerfið. Hann segir að það sé sýn skoðun að niðurstaða Rögnu-nefndarinnar sé skýr en þar er rætt um nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Keflavíkurflugvöllur sé í hans huga ekki langt í burtu frá Reykjavík. 

Dagur segir að nýr flugvöllur kosti mikið fé en þjónustugjöld muni borga flugvöllinn upp. Vel rekinn flugvöllur geti staðið undir sér sjálfur. Hann segir að það sé besta lausnin að byggja nýjan flugvöll. Það skipti máli að sátt náist. Benedikt greip þetta á lofti og bendir á að enn einu sinni þá snúist þetta um sátt og samstarf. 

Óttarr segir að ríkisstjórnin taki það fram að heilbrigðismálin séu forgangsmál hennar og allir séu í raun sammála þar. Kominn sé tími til að klára það verkefni að reisa nýjan spítala við Hringbraut. 

Þetta kostar mikið átak bæði skipulagslega og fjármagn. Dagur fagnar öllum þeim atriðum sem tiltekin eru í stjórnarsáttmálanum varðandi heilbrigðismál. 

Benedikt segir nýjan spítala tækifæri að gera hlutina á hagkvæmari hátt og að talað sé um að fimm milljarðar sparist árlega við nýtt skipulag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert