„Vona að það skapist friður um störf hreyfingarinnar“

Bragi Björnsson skátahöfðingi Íslands
Bragi Björnsson skátahöfðingi Íslands

„Ég tók þá ákvörðun að rétt væri að leyfa forystunni að endurnýja umboð sitt.“ Þetta segir Bragi Björnsson, skátahöfðingi Bandlags íslenskra skáta, sem tilkynnti á fé­lags­for­ingja­fundi skáta í dag, þar sem stjórn BÍS fundaði með fé­lags­for­ingj­um, að hann myndi segja af sér þrátt fyrir að hafa aðeins setið í eitt ár af þremur sem hann var kosinn til á landsþingi í mars í fyrra.

Bragi hefur verið skátahöfðingi í tæplega 7 ár samtals, en kosið er til þriggja ára í senn. Þá hefur hann verið í stjórn BÍS frá árinu 1998.

Frétt mbl.is: Bragi hættir sem skátahöfðingi

Frétt mbl.is: Ósætti með uppsögn framkvæmdastjórans

Aðspurður hvort hann muni á ný bjóða sig fram á komandi þingi í mars segir Bragi að hann hafi ekki gert upp hug sinn en vill ekkert útiloka. Hann segir þó mikla gleði hafa brotist út hjá börnum sínum sem hafi séð fram á meiri tíma með honum, enda hafi hann upphaflega verið kosinn skátahöfðingi þegar þau voru aðeins 3 og 6 ára.

Rétt að segja af sér og kjósa á ný

Hann segist þegar búinn að vera skátahöfðingi lengi og að hann hafi unnið af heilindum fyrir hreyfinguna með það að leiðarljósi sem væri best fyrir hana. „En ég taldi í ljósi þess að hópur skáta hafði kvatt til þess að forystan myndi endurnýja umboð sitt að rétt væri að segja af mér og kjósa á ný,“ segir hann. Næsta þing fer fram 10. mars á Akureyri.

„Ég vona að það skapist friður um störf hreyfingarinnar í kjölfarið,“ segir Bragi, en í desember sagði mbl.is frá því að ósætti hefði komið upp innan hreyfingarinnar með uppsögn framkvæmdastjóra hennar. Þá var meint eineltismál sagt upphaf ósættisins. Bragi segir að hann hafi þó engin afskipti haft af vinnslu þess máls og er það ítrekað í tilkynningu sem BÍS sendi frá sér fyrr í kvöld.

Innan skátahreyfingarinnar eru um þrjú þúsund félagar á aldrinum 7-22 ára og um 1.500 manns á fullorðinsaldri í ýmiskonar sjálfboðastarfi. Þá segir Bragi að margfalt fleiri verði fyrir áhrifum starfsins, svo sem í gegnum sumarbúðirnar á Úlfljótsvatni.

Litlu hlutirnir staðið uppúr

„Ég lít mjög stoltur um öxl,“ segir Bragi um tíma sinn sem skátahöfðingi og bendir meðal annars á Friðarþing sem var haldið árið 2012, landsmótin 2012, 2014 og 2016, og þá sé stefnt á stórt alþjóðlegt skátamót hér á landi í sumar með um 6 þúsund erlendum gestum. Þá segir hann að fjárhagur starfsins hafi verið styrktur og þjálfun fullorðinna sjálfboðaliða bætt.

Bragi Björnsson, skátahöfðingi.
Bragi Björnsson, skátahöfðingi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það eru samt litlu hlutirnir sem hafa staðið uppúr, útilegur, sofa í tjaldi um vetur og að stunda skátastarfið. Það stendur upp úr fram yfir rekstrarlega þætti,“ segir Bragi að lokum.

Það hefur verið mér heiður og ánægja að þjóna skátum sem skátahöfðingi undanfarin sex ár. Þá er ég afar þakklátur öllu því góðu fólki sem ég hef haft tækifæri á að vinna með að framgangi skátastarfs. Ég afar stoltur af starfi mínu sem skátahöfðingi og tel að skátahreyfingin hafi sjaldan verið í betri stöðu til að efla starfs sitt, landi og þjóð til heila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert