Árásir og eignaspjöll

Stúlkur neyddust til að forða sér inn á hótel við Tryggvagötu eftir að maður réðst á þær í nótt. Lögregla var kölluð til en þá hafði maðurinn forðað sér. Samkvæmt lögreglu er vitað hver maðurinn er.

Nokkuð annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Um kl. 23.10 tilkynnti maður um líkamsárás á Háaleitisbraut og sagði m.a. að úlpu hans hefði verið stolið. Ýmsir munir munu hafa verið í úlpunni en maðurinn sagðist þekkja gerandann og vildi ekki aðstoð lögreglu. Sagðist hann munu reyna að endurheimta úlpuna sjálfur.

Um kl. 2.12 var tilkynnt um eignaspjöll í vesturborginni. Rúður voru brotnar í bifreið en eigandi bifreiðarinnar sá til gerenda og sagði annan þeirra hafa ráðist á sig í miðbænum fyrr um nóttina.

Maður var handtekinn við Templarasund nærri dómkirkjunni en hann var sagður hafa áreitt stúlku. Maðurinn var ofurölvi og vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Þá var maður handtekinn um kl. 3.30 eftir að hafa ráðist á dyraverði á veitingahúsi við Laugaveg. Var hann ölvaður og vistaður í fangageymslu þar til ástand hans lagast.

Þrír voru stöðvaðir í miðborginni og á Sæbraut grunaðir um akstur undir áhrifum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert