Hálka og krapi víða

Það er hálka víða. Myndin er úr safni.
Það er hálka víða. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er víða hálka eða krapi á vegum á Suðurlandi, einkum í uppsveitum, en hringvegurinn er auður austur undir Eyjafjöllum, þar sem eru hálkublettir. Þoka er á Hellisheiði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Við Faxaflóa hefur mikið tekið upp en enn er þó sums staðar nokkur hálka inn til landsins. Snjóþekja er í Staðarsveit og á Fróðárheiði.

Hálka er á flestum vegum í Dölunum og hált eða jafnvel flughált á köflum í Barðastrandasýslu, s.s. á Klettshálsi og Kleifaheiði. Á norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum er víða krapi eða hálka.

Víða er hálka á Norðurlandi og krapi á útvegum en verið er að hreinsa og hálkuverja. Þæfingsfærð er á kafla yfir Fjöllum en á Austur- og Suðausturlandi er víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert