Málið í algjörum forgangi hjá lögreglu

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir.

Lög­reglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir enn eftir Birnu Brjáns­dótt­ur, sem er fædd árið 1996, en síðast er vitað um ferðir hennar í miðborg Reykja­vík­ur um kl. 5 aðfaranótt laugardags. Málið er í algjörum forgangi hjá lögreglu og unnið er úr öllum vísbendingum sem berast. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Við rannsóknina, sem hefur staðið yfir sleitulaust í allan dag, hefur lögregla m.a. skoðað upptökur úr eftirlitsmyndavélum og símagögn, en það hefur ekki skilað árangri enn sem komið er.

Síma Birnu hugsanlega stolið

Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu, segir að nýjar upplýsingar frá lögreglu bendi til þess að síma dóttur hennar hafi hugsanlega verið stolið þar sem hún hafi hætt að senda skilaboð um klukkan 3 um nóttina. Þá sýni öryggismyndavélar að hún hafi gengið upp Laugaveginn stuttu síðar.

Sigurlaug segir að fjöldi fólks leiti nú dóttur hennar en á Face­book-síðu sem stofnuð var um leitina segir fólk frá því hvar það hafi leitað. Ekki hefur verið sett af stað allsherjarleit og segist Sigurlaug halda það vera vegna þess að ekki nægar vísbendingar hafi komið fram um staðsetningu dóttur hennar.

Birna er fædd árið 1996, er 170 cm há, um það bil 70 kg og með sítt rauðleitt hár. Birna var klædd í svart­ar galla­bux­ur, ljós­gráa peysu, svart­an flís­jakka með hettu og svarta Dr. Mart­in-skó.

Allir þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Birnu frá því kl. 5 í gærmorgun eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000.

Frétt mbl.is: „Gerum allt sem hægt er“

Frétt mbl.is: Face­book-síða stofnuð vegna leit­ar

Frétt mbl.is: All­ir geti tekið þátt í leit­inni

Frétt mbl.is: Lög­regl­an leit­ar að Birnu Brjáns­dótt­ur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert