Spá stormi og hlýindum

Vindaspá kl. 19 í kvöld.
Vindaspá kl. 19 í kvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Það styttir upp síðdegis og kólnar á vestanverðu landinu, því er von á hálku og ísingarhættu þar sem vegir verða blautir, einkum á fjallvegum í fyrstu en á láglendi í nótt. Það kólnar austan til í kvöld og nótt, samkvæmt veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Veðurstofa Íslands varar við stormi um landið norðvestanvert og á miðhálendinu. Þá segir veðurfræðingur á vakt von á sunnan hvassviðri eða stormi og hlýju veðri, og talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands. Búast megi við hláku á þeim slóðum.

Áfram spáir stormi norðvestanlands á morgun, með éljagangi.

Horfur næsta sólahringinn:

Sunnan 10-18 m/s, en 15-23 norðvestan til. Rigning eða talsverð rigning sunnan- og vestanlands, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast á annesjum norðan til. Vestlægari í kvöld og kólnar, fyrst vestan til. Suðvestan 10-18 m/s í nótt og á morgun, en 15-23 m/s um landið norðvestanvert. Él, einkum vestan til, en léttir til austanlands. Heldur hægari annað kvöld. Frost 0 til 5 stig norðan til, en yfirleitt frostlaust við suðurströndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert