20 mínútur í stað 15 sekúndna

Lyftan umtalaða er oft biluð.
Lyftan umtalaða er oft biluð. Ljósmynd/Aðsend

Lyfta festist á Landspítalanum við Hringbraut um miðnætti í nótt en í lyftunni voru hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði og sjúklingur sem var á leið frá gjörgæslu á almenna deild. 

„Við vorum að sækja sjúkling á gjörgæslu sem var að koma úr aðgerð og vorum að fara með hann upp á deildina okkar. Lyftan stoppar þrisvar sinnum en í fyrstu tvö skiptin gat ég ýtt aftur á takkann þannig að hún fór af stað. Hins vegar var hún alveg stopp þegar hún stoppaði í þriðja skiptið,“ segir hjúkrunarfræðingurinn Ásrún Þóra Björnsdóttir þegar hún er beðin að lýsa atburðum næturinnar.

Sama lyfta festist milli hæða á jóladag en þá þurfti vélvirki að hífa lyftuna og ná fólki sem var þar inni út.

Landspítali við Hringbraut.
Landspítali við Hringbraut. mbl/ Ómar Óskarsson

Frétt mbl.is: Lyfta festist á milli hæða spítalans

Ásrún hringdi neyðarbjöllunni og öryggisvörður kom til að aðstoða fólkið sem var fast. „Hann gat opnað hurðina og talaði til okkar og reyndi að gera eitthvað en það virkaði ekki. Hann kom henni ekki af stað, þannig að hann hringdi í vélvirkja sem átti að vera hálftíma á leiðinni,“ segir Ásrún en henni var farið að leiðast þófið og ákvað að fikta í tökkunum:

Sem betur fer var sjúklingurinn stabíll

Ég var orðin pirruð á að bíða og fór að fikta aftur í tökkunum og með miklum trega hrökklaðist hún upp á fjórðu hæð. Við vorum örugglega föst í lyftunni í svona 20 mínútur,“ segir Ásrún en venjulega tekur lyftuferðin ekki nema 15 sekúndur. „Sem betur fer vorum við með stabílan sjúkling en við hefðum getað verið með óstabílan sjúkling að fara í rannsókn.

Ljósmynd/Aðsend

Sjúklingurinn sem festist í lyftunni var dönskumælandi og lentu Ásrún og sjúkraliðinn í vandræðum með að útskýra fyrir honum hvað væri að gerast. „Ég og sjúkraliðinn byrjuðum að babbla á dönsku og vissum ekki hvernig við ættum að útskýra þetta fyrir honum. Hann var eitt stórt spurningarmerki greyið.

Ásrún hefur unnið á spítalanum í rúmlega ár en segir að hún hafi allt of oft séð lyftuna bilaða. „Það er ótrúlegt hvað er hægt að hafa hana lengi bilaða miðað við hvað þetta er mikilvægur fararkostur í húsnæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert