Bjóða öllum skólum hugbúnað

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir hefur ásamt fleirum hjá Locatify þróað hugbúnað …
Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir hefur ásamt fleirum hjá Locatify þróað hugbúnað sem kennsluefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá skólunum og vonumst til þess að sjá sem flesta á kynningunni,“ segir Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Locatify í Hafnarfirði, sem á undanförnum árum hefur þróað hugbúnað til sköpunar bóka og ratleikja fyrir grunnskóla.

Hefur fyrirtækið ákveðið að gefa öllum skólum aðgang að hugbúnaðinum gjaldfrjálst í eitt ár. Hugbúnaðurinn hefur einnig verið notaður í skólum, söfnum og verslanamiðstöðvum erlendis, eins og í Færeyjum, Danmörku, Þýskalandi og Lettlandi. Þar hafa viðtökur verið góðar en fyrirtækið hefur þróað viðmótið í ratleikjunum á íslensku og fleiri tungumálum.

Verkfærakista fyrir nemendur

Steinunn mun ásamt Torfa Hjartarsyni lektor standa fyrir kynningu á hugbúnaðinum í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð á morgun, þriðjudag, kl. 16. Hugbúnaðurinn var þróaður af Locatify m.a. í samstarfi við skólann og hefur verið notaður í kennaranáminu.

Að sögn Steinunnar er um nokkurs konar verkfærakistu að ræða fyrir nemendur, þar sem þeir geta búið til gagnvirkar bækur með leikjaívafi og gefið út í spjaldtölvum og jafnframt ratleiki sem keppt er í með snjallsímum. Námstólin sem standa kennurum til boða eru aðgangur í vefkerfi Locatify, smáforritið Goldworm Education og ratleikjaappið Goldhunt Education. Goldworm er með gagnvirkum bókum og hægt að hala forritið niður á Apple- og Android-spjaldtölvur. Í ratleikjaappinu keppast nemendur við að leysa þrautir úti á mörkinni og áskoranir birtast á fyrirfram ákveðnum stöðum.

Steinunn, sem er íslenskumenntuð og með kennsluréttindi, segir markmiðið með þróun þessa hugbúnaðar að hvetja börn til að nýta sköpunargáfuna í að hanna og skrifa bækur og útbúa einnig ratleiki sem hægt sé að nota í útikennslu. Hún segir tæknina ýta undir að nemendur taki virkan þátt í sínu námi. „Okkar draumur var að koma með tól sem hægt væri að nota við kennslu á sem breiðustum grundvelli. Nemendur fá þarna margvíslega möguleika í hendurnar og hægt er að nota efnið í ýmsum námsgreinum. Þeir fá góða æfingu í að ákvarða aðgerðir, líkt og í forritun, þar sem bókakerfið býður upp á að tengja texta og mynd til að fá stig, tengja hljóð við texta, opna kort við einhverja sögu, vinna með spurningar og svör, og svo framvegis.“

Í söfnum og ferðaþjónustu

Við þróun hugbúnaðarins naut Locatify m.a. styrks frá Nordplus, menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfshópur, sem samanstendur af kennurum í Lettlandi og á Íslandi og námsbókaútgefanda í Færeyjum, hefur unnið að því að laga bókakerfið að þörfum nemenda. Hópurinn kynnti kennsluefnið á ráðstefnu í Svíþjóð í nóvember sl. og að sögn Steinunnar Önnu vakti það talsverða eftirtekt.

Meginverkefni Locatify hefur verið þróun á leiðsagnarbúnaði og ratleikjum sem víða er farið að nota í ferðaþjónustu og á söfnum, bæði hér á landi og erlendis. Eldheimar í Vestmannaeyjum voru fyrsta safnið sem tók upp þessa tækni. Einnig var hún tekin upp í Þórbergssetrinu í fyrra og er m.a. í notkun á einu vísindasafni í Kanada. Tæknin hreif t.d. blaðamann The Guardian sem valdi Eldheima sem einn af 10 áhugaverðustu stöðum í heiminum að heimsækja. Með Bluetooth-tækni virkjast símar gesta á réttum stöðum en forritin eru ýmist sótt í snjallsíma þeirra eða síma sem eru afhentir á söfnum. Þeir geta þá fylgt eftir leiðsögn og efni með gagnvirkum og myndrænum hætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert