Björgunarsveitir leita í Heiðmörk

Björgunarsveitir að leit í Heiðmörk.
Björgunarsveitir að leit í Heiðmörk. mbl.is/Golli

Björgunarsveitir eru komnar langt með að klára að leita þau svæði sem voru teiknuð upp í dag út frá þeim litlu vísbendingum sem hafa fundist í máli Birnu Brjánsdóttur sem týnd hefur verið frá því á laugardaginn. Í það heila hafa um 145 björgunarsveitarmenn komið að leitinni í dag og eru um 120 manns þegar þetta er skrifað að leita.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að nú leiti björgunarsveitamenn í Heiðmörk, að mestu leyti milli Vífilsstaða og Kaldárselsvegar, á svokallaðri Flóttamannaleið.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag var slökkt handvirkt á síma Birnu í nótt og miðað við boð frá farsímasendum var talið að það hafi gerst við Flatahraun í Hafnarfirði. Leit þar bar aftur á móti engan árangur. Ekki er vitað hvort Birna hafi þá verið með símann eða einhver annar. Fram kom á fundi lögreglunnar í dag að talið væri líklegt að síminn hafi verið í bíl sem keyrt var á í Hafnarfjörð á þessum tíma.

Þá kom fram í skoðun tæknimanna að sími Birnu hefði aðallega verið miðaður út af farsímasendum sem miðuðu í austurátt. Það ýtti undir þá kenningu að bílnum sem síminn væri í hefði verið ekið upp í Heiðmörk af Reykjanesbrautinni. Miðaði leit björgunarsveita og gæslunnar í kvöld að því að skoða þetta svæði í Heiðmörk.

Þorsteinn segir leitina í dag engan árangur hafa borið. Þá hafi engin ákvörðun verið tekin um áframhaldandi leit, en væntanlega verði staðan metin betur í kvöld af svæðisstjórn og lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert