Telur ekki tilefni til að skoða mál Bjarna

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþingis telur ekki tilefni til þess að taka til skoðunar meint brot Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, á siðareglum ráðherra í ljósi þess að hann hefur sjálfur lýst þeirri skoðun sinni opinberlega að um mistök hafi verið að ræða af hans hálfu eftir á að hyggja. Málið snýst um drátt á birtingu skýrslu starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum.

Þetta kemur fram í bréfi sem umboðsmaður Alþingis hefur sent Svandísi Svavarsdóttur, þingflokksformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem óskaði eftir því fyrr í þessum mánuði að embættið tæki málið til athugunar. Vísaði Svandís til þess að samkvæmt siðareglum ráðherra væri ráðherra óheimilt að halda upplýsingum sem vörðuðu almannahag leyndum. 

Frétt mbl.is: Telur Bjarna hafa brotið siðareglur

Umboðsmaður Alþingis vísar í þessu sambandi í Kastljósþátt Ríkisútvarpsins 11. janúar þar sem Bjarni sat fyrir svörum og sagði að eftir á hefðu verið mistök að birta ekki skýrsluna fyrr en það var gert í byrjun þessa mánaðar. Segist hann líta svo á að ekki sé um það deilt að efni skýrslunnar varði almannahag í ljósi þess að samstaða virðist vera um það.

Umboðsmaður segir að samkvæmt athugun sinni hafi skýrslan legið fyrir í ráðuneytinu 13. september og í framhaldi hafi verið unnið að yfirlestri hennar og leiðréttingu á texta hennar. Fyrirhugað hafi verið að ráðherra fengi kynningu á efni skýrslunnar 28. september en það hafi dregist til 5. október. Fimm dögum síðar hafi Bjarni tilkynnt á Alþingi að skýrslan yrði kynnt á næstu dögum. Af því hafi hins vegar ekki orðið þar sem þingið hafi verið á heimleið.

Umboðsmaður upplýsir að lokum að embættið hafi óskað eftir svörum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna málsins í tengslum við frumkvæðisrannsókn sem tengist því og varði með almennum hætti þær skyldur og heimildir sem stjórnvöld hafi til þess að veita almenningi, og þá til að mynda fjölmiðlum og kjörnum fulltrúum, aðgang að upplýsingum og gögnum sem varðveitt séu eða verði til hjá opinberum aðilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert