„Þetta er í algerum forgangi“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ræða forsætisráðherrans kom ekki á óvart enda var hún í anda þess sem hún hefur áður talað um, meðal annars á flokksþingi Íhaldsflokksins, og er í samræmi við þá umræðu sem fór fram í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna síðasta sumar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við ræðu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í gær þar sem hún gerði grein fyrir áherslum ríkisstjórnar sinnar vegna fyrirhugaðrar úrsagnar Breta úr Evrópusambandinu. Þar lagði ráðherrann áherslu á fríverslun við ríki heimsins samhliða áframhaldandi góðri samvinnu við sambandið

„Samningsforsendurnar hafa verið lagðar á borðið og það er kominn skýrleiki í þetta mál enda er afar mikilvægt að það sé sátt um það ferli sem fram undan er. Ég greini bjartsýni um næstu skref og ég hef fulla trú á að vel takist til ekki síst ef litið er til fyrstu viðbragða t.d. þýskra ráðamanna sem einkennast af hófstillingu, varkárni og ábyrgð. Utanríkisráðherrann Steinmeier fagnar því t.a.m. að myndin sé loks að skýrast af hálfu Breta og Sigmar Gabriel efnahagsmálaráðherra hrósar May fyrir að leggja áherslu á að Bretar vilji halda nánu samstarfi við ESB eftir úrsögn.“

Leggja áherslu á fríverslun á heimsvísu

„Það sem er hvað ánægjulegast í þessu er að fimmta stærsta efnahagsveldið hyggst setja sér það markmið að verða í forystu fyrir fríverslun í heiminum. Það þýðir einfaldlega að eitthvað mun gerast í þeim málum en fátt umtalsvert hefur gerst í þeim efnum á undanförnum árum og áratugum og þetta staðið fríverslun fyrir þrifum. Í þessari stöðu felast tækifæri fyrir alla. Þar með talin EFTA-ríkin Ísland, Noreg, Sviss og Liechtenstein,“ segir Guðlaugur Þór. Vísar hann þar ekki síst til þess að viðræður um afnám viðskiptahindrana einkum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Segir Guðlaugur Þór að Brexit muni þannig hugsanlega losa um ákveðna krafta í heimsviðskiptum og næstu ár muni því vera afar mikilvæg hvað mótun fríverslunar varðar og að þar þurfi árvekni og snerpu til að tryggja framtíðarhagsmuni Íslands.

Theresa May, forsætisráðherra Breta.
Theresa May, forsætisráðherra Breta. AFP

„Það sem May leggur einnig áherslu á er að Bretar séu ekki að yfirgefa Evrópu þótt þeir segi skilið við Evrópusambandið enda snýst samstarf Evrópuríkja um miklu meira en bara sambandið. Hún leggur mikla áherslu á að viðhalda áfram viðskiptum með vörur og þjónustu á milli Bretlands og Evrópusambandsins og vill ná samkomulagi um það hvernig það verði gert. Enda er það svo að það regluverk sem er í gildi núna er fyrst og fremst mannanna verk og ekki forsenda fyrir frjálsum viðskiptum og ef pólitískur vilji er til að viðhalda þessum viðskiptum og því sem þeim fylgir, eins og för fólks á milli landa, í álfunni þá er það auðvitað hægt.“

Segir Guðlaugur Þór það einnig jákvætt að í ræðu May hafi komið skýrt fram að bresk stjórnvöld litu svo á að áskoranir á borð við hættuna af hryðjuverkum og aðrar öryggisógnir séu sameiginlegar og að óskað sé eftir að nýtt fyrirkomulag á samstarfi Bretlands og ESB muni gera ráð fyrir náinni samvinnu á sviði öryggismála, löggæslu og upplýsingaskipta eins og verið hefur. „Þetta var afar mikilvæg yfirlýsing og nauðsynlegt að halda því til haga,“ segir Guðlaugur Þór.

Ræðir við ráðherra Bretlands og Noregs

May hafi hins vegar einnig beint þeim orðum til forystumanna innan Evrópusambandsins að ef þeir ætluðu að sýna mikla hörku og óbilgirni í viðræðunum sem fram undan eru á milli Bretlands og sambandsins sem yrði til þess að erfitt yrði að semja um viðskipti þar á milli þá myndi Evrópusambandið tapa meira á því en Bretland. Enda tapi allir á því ef frjáls viðskipti eru ekki fyrir hendi á sama hátt og allir hagnist á því þegar þau séu fyrir hendi.

„Það sem er líka ánægjulegt er að Bretar eru einnig að horfa til annarra svæða því Evrópa er auðvitað aðeins hluti af heiminum og þau svæði þar sem mestur vöxtur og efnahagsleg framþróun verður í framtíðinni eru annars staðar. Opnun gagnvart straumum og stefnum frá þessum nýmarkaðssvæðum er mikilvæg og í raun forsenda þess að samkeppnishæfni Evrópu aukist. Það hefur verið áhyggjuefni að þau markmið sem menn hafa sett sér á undanförnum árum á vettvangi Evrópusambandsins varðandi til að mynda samkeppnishæfni hafa ekki gengið eftir.“

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Spurður frekar um hvernig málið horfi við íslenskum stjórnvöldum segir Guðlaugur Þór að um sé að ræða forgangsmál í þeim efnum. „Þetta er mjög brýnt mál. Sem þingmaður tók ég málið upp á vettvangi EFTA sem formaður þingmannanefndarinnar og fyrirrennari minn í starfi setti mikla vinnu af stað í utanríkisráðuneytinu sem ég mun og er byrjaður að fylgja eftir. Ég hef þegar átt fund með breska sendiherranum og það liggur fyrir að ég mun hitta þá ráðherra í ríkisstjórn Bretlands sem hafa með þessi mál að gera á næstunni.“

Guðlaugur Þór hefur að sama skapi verið í sambandi við þá ráðherra sem fara með utanríkis- og Evrópumál í Noregi vegna málsins. „Við eigum sambærilegra hagsmuna að gæta og Noregur. Bretland er eitt af okkar stærstu viðskiptalöndum. Ég mun fara til Tromsø vegna fundar varðandi Norðurskautsmálin og funda þar sérstaklega með Evrópu- og EES-ráðherra Noregs og hann mun síðan koma hingað í lok mánaðarins. Þannig að þetta er í algerum forgangi. En eins og fram kom í máli utanríkisráðherra Bretlands í gær lítur þetta bara vel út frá sjónarhóli beggja aðila. Báðir aðilar eru viljugir til þess að ná góðri lendingu og vinna hratt og örugglega að því.“

Verða ekki aðilar að EES-samningnum

„Hins vegar taka Bretar auðvitað ekki formlega við sínum viðskiptamálum fyrr en þeir hafa yfirgefið Evrópusambandið en það stoppar okkur ekki í því að hefja undirbúning. Það er einfaldlega ekki í boði að bíða og sjá hvað gerist í aðdraganda útgöngusamnings Breta. Okkar fólk hefur þegar hafist handa og starfar eftir mismunandi sviðsmyndum. Það eru gríðarmiklir hagsmunir í húfi fyrir okkur enda eru Bretar ein okkar helsta viðskiptaþjóð. Fyrir utan viðskipti og blómleg samskipti Íslands og Bretlands sýnist mér að þegar kemur að stefnu og metnaði ríkjanna í frjálsum viðskiptum erum við í sama báti. Drifkraftur heimsviðskipta felst í nýsköpun, frelsi og sveigjanleika og þar viljum við vera í fremstu röð.“

Miðað við ræðu May ætla Bretar að standa utan innri markaðar Evrópusambandsins sem þýðir að ekki kemur til álita að Bretland gerist aðili að EES-samningnum líkt og Ísland, Noregur og Liechtenstein. Guðlaugur Þór segir allt þannig benda til þess að ekki komi til þess. Hins vegar sé engri loku fyrir það skotið að Bretar yrðu aftur aðilar að EFTA kjósi þeir það.

„Ég held að við getum alveg blásið af þann möguleika að Bretar verði aðilar að EES-samningnum. En hins vegar er EFTA og EES ekki það sama. Sviss er til að mynda aðili að EFTA en ekki EES og það væri alveg vel þess virði að skoða það vandlega að Bretar yrðu aðilar að EFTA. Þeir stofnuðu EFTA á sínum tíma og þar gætu legið mikil tækifæri fyrir EFTA-ríkin og Bretland ef af því yrði. Í Bretlandi stendur nú yfir mikil umræða um hvert skuli stefna miðað við þær skýru samningsforsendur sem May lagði fram í gær. Ég tel að bresk stjórnvöld ættu í það minnsta að horfa til þess árangurs sem Ísland og hin EFTA-ríkin hafa náð á undanförnum árum.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert