Kafarar í Hafnarfjarðarhöfn

Leit við Hafnarfjarðarhöfn í dag.
Leit við Hafnarfjarðarhöfn í dag. mbl.is/Ófeigur

Kafarar hafa í dag verið við störf í Hafnarfjarðarhöfn á þeim slóðum sem peysa fannst í gærkvöldi. Verið er að skoða hvort að peysan tengist mögulega hvarfi Birnu Brjánsdóttur, en skór hennar fundust á svipuðum slóðum á mánudagskvöld.

Í kjölfar peysufundarins var ákveðið að hefja leit í höfninni. Engar frekari vísbendingar hafa fundist á þessari stundu.

Peysan fannst undir miðnætti í gær, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns. Almennur borgari fann peysuna og lét lögregluna vita.

Grímur segir að á þessum tímapunkti sé eina ástæðan fyrir því að peysan er rannsökuð sú að hún fannst á þessum stað. „Þetta er bara gagn sem við fundum á svæðinu og erum að skoða allar upplýsingar.“

Í hádegisfréttum RÚV kom fram að sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra væru á leið í þyrlu Landhelgisgæslunnar til móts við grænlenska togarann Polar Nanoq. Skipverjar á honum eru mögulega taldir tengjast eða geta veitt upplýsingar um hvarf Birnu. Grímur vill sem fyrr ekkert staðfesta um þetta. 

Björgunarsveitir halda áfram leit

Leitinni að Birnu er framhaldið í dag og munu björgunarsveitir leita á tilteknum svæðum. Leitað er út frá þeim fjölmörgum vísbendingum sem hafa borist frá almenningi. Vísbendingum um leitarsvæði er forgangsraðað og er unnið samkvæmt því.

Lögreglan minnir á að hægt er koma upplýsingum á framfæri í síma lögreglu 444 1000 eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert