Nýtt tengivirki tekið í notkun á Akranesi

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, …
Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Mynd/Guðni Hannesson

Nýtt tengivirki Veitna og Landsnets á Akranesi var formlega tekið í notkun í dag við athöfn. Framkvæmdum við tengivirkið lauk vorið 2016. Við þetta tilefni ávarpaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gesti og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, fluttu tölu.

Nýja tengivirkið á Akranesi er staðsett við Smiðjuvelli 24 en gamla tengivirkið var á svæði sem nú hefur verið skipulagt sem íbúðarhverfi. Byggingarframkvæmdir voru boðnar út 2014 og var samið við ÍAV um byggingu hússins og hófust framkvæmdir haustið 2014. Uppsetning á rafbúnaði hófst haustið 2015 og húsið var fullklárað vorið 2016.

Byggingin, sem er um 1.150 fermetrar, er 70% í eigu Veitna og 30% í eigu Landsnets. Rafmagn kemur til stöðvarinnar frá Brennimel og frá Andakíl eftir flutningskerfi Landsnets og við hana tengjast 45 dreifistöðvar (spennistöðvar), staðsettar vítt og breitt um bæinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert