Rætt við hina handteknu um borð

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lögreglumenn sem fóru um borð í græn­lenska fiski­skip­ið Pol­ar Nanoq u.þ.b. 90 míl­ur suðvest­ur af land­inu hafa rætt við mennina tvo sem voru handteknir í áhöfn þess. Var þeim kynnt sakarefni og boðið að tjá sig, en lítið fékkst þó upp úr því. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Segir hann að mennirnir verði yfirheyrðir við komuna til landsins seinna í kvöld. Staðsetning þess hvar þeir verða yfirheyrðir er þó enn óákveðin. Grímur segir að mennirnir, sem eru grænlenskir ríkisborgarar, muni eiga rétt á túlki.

Aðspurður hvort þeir séu grunaðir um saknæmt athæfi segir Grímur að þeir séu ekki með réttarstöðu grunaðra, en í kjölfar yfirheyrslna verði tekin ákvörðun um framhaldið.

Aðrir í áhöfn skipsins eru frjálsir ferða sinna og hafa þeir ekki fengið nein fyrirmæli um að halda kyrru fyrir. Spurður hvort mennirnir tveir séu í járnum segist Grímur ekki geta svarað því, en að búið sé að skilja þá frá öðrum í áhöfninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert