„Þetta eru heljarmenni“

Kafari við flotkvína í Hafnarfjarðarhöfn í kvöld. Leitin hefur verið …
Kafari við flotkvína í Hafnarfjarðarhöfn í kvöld. Leitin hefur verið í dag meðfram bryggjukantinum þar sem Polar Nanoq lá og í kringum flotkvína. mbl.is/Eggert

Kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni hafa í dag leitað vísbendinga vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því aðfaranótt laugardags, í Hafnarfjarðarhöfn.

Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem stjórnar leitaraðgerðum lögreglu, segir leitina í dag hafa beinst að svæðinu þar sem grænlenska skipið Polar Nanoq lá. „Þeir eru búnir að vera að leita meðfram bryggjukantinum þar sem skipið lá og í kringum flotkvína,“ segir Ágúst.

Aðstæður til leitar hafa ekki verið góðar, sjórinn er gruggugur og vindur hvass. Þetta eru heljarmenni,“ segir Ágúst um þá kafara embættis ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar sem voru að störfum þar til leit var hætt um sjöleytið í kvöld.

Leitin hefur enn engan árangur borið, en vel hefur gengið að nota kafbát sem lögregla hefur notað til aðstoðar við leit á svæðinu. „Hann sér mjög vel. Þetta er sónarskanni og hann virkar mjög vel á þessa heildarmynd.“

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari leit neðansjávar. „Við tökum stöðufund klukkan níu í fyrramálið. Svo þurfum við að bera saman bækur okkar og sjá hvort það eru einhverjar aðrar vísbendingar.“

Lögreglu hefur borist fjöldi ábendinga frá almenningi í tengslum við leitina að Birnu og segir Ágúst þær allar vera kannaðar. „Við hlaupum á eftir hverri vísbendingu sem við vitum af og sjáum svo hvort það ber einhvern árangur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert