Þurfa að mæta fyrir dóm

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Þórður

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eglu, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eglu, þurfa að mæta fyrir dóm til að gefa skýrslu að beiðni rannsóknarnefndar Alþingis. Hæstiréttur hafnaði í gær í annað sinn kröfu þeirra um að mæta ekki fyrir nefndina, og sneri þannig við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki væri hægt að skylda þá til að gefa skýrslu í málinu.

Rannsóknarnefndinni var falið að rannsaka þátttöku þýska bankans Hauck & Auf­häuser Pri­vat­bankiers í kaupum á 45,8 prósent eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Hún var skipuð í sumar þar sem grunur er talinn leika á að aðkoma bankans að kaupunum hafi ekki verið sú sem fullyrt var. Egla var stærsti einstaki aðilinn í kaupum S-hópsins á nær helmingshlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2002.

Ólafur og Guðmundur hafa neitað að mæta fyrir rannsóknarnefndina í tvígang, fyrst þegar þeir sögðu Ásmund Helgason héraðsdómara vanhæfan og nú þar sem þeir töldu að Alþingi hefði ekki vald til að fyrirskipa rannsóknina. Meint vanhæfi dómarans sner­ist um það að hann er dóm­ari við Héraðsdóm Reykja­vík­ur líkt og Kjart­an Bjarni Björg­vins­son sem Ein­ar K. Guðfinns­son, for­seti Alþing­is, skipaði í sum­ar til þess að stýra rann­sókn­ar­nefnd­inni. Hæstiréttur hafnaði því í nóvember síðastliðnum að Ásmundur væri vanhæfur.

Í dómi Hæstaréttar sem birtist í gær kemur fram að það sé hafið yfir vafa að Alþingi megi fyrirskipa rannsókn á kaupum á Búnaðarbankanum. Héraðsdómur taldi hins vegar að mennirnir þyrftu ekki að mæta til skýrslutöku þar sem ekki sé hægt að skylda þá til að vitna gegn sjálfum sér í máli sem valdið geti þeim alvarlegum mannorðshnekki. Hæstiréttur sagði hins vegar að eingin ákvæði laga heimiluðu að mennirnir neituðu að mæta til skýrslutöku. Þeir gætu hins vegar neitað því að svara einstökum spurningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert