Þyrlan lent á Reykjavíkurflugvelli

Sérsveitarmenn á leið um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun.
Sérsveitarmenn á leið um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun. Skjáskot af vef RÚV

TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, er lent á Reykjavíkurflugvelli en í morgun sást hópur sérsveitarmanna fara um borð í þyrluna. Í fréttum RÚV í hádeginu kom fram að þyrlunni yrði flogið til móts við grænlenska togarann Polar Nanoq.

Í frétt RÚV segir nú að þyrlan sé lent og að vélin hafi verið dregin beint inn í flugskýli áður en áhöfnin og aðrir sem kunna að vera í þyrlunni stigu frá borði.

Skipverjar á Polar Nanoq eru mögulega taldir tengjast hvarfi Birnu Brjánsdóttur með einhverjum hætti. Skipið var við höfn er Birna hvarf en var siglt áleiðis að Grænlandsströndum þar sem þar var statt í gærkvöldi. Þá var hins vegar tekin ákvörðun um að snúa skipinu aftur til hafnar á Íslandi. Lögreglan á Íslandi leitaði aðstoðar danska hersins en varðskip hans, Triton, var þá í eftirlitsferð á svæðinu. Fjórir rannsóknarlögreglumenn voru fluttir um borð í þyrlu Gæslunnar út í Triton í gærkvöldi.

Polar Nanoq er nú komið inn í íslenska landhelgi. Það er talið væntanlegt til hafnar í Hafnarfirði um kl. 23 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert