Enn ekki vitað hvar Birna er

Farið var með skipverjana á lögreglustöðina við Hverfisgötu í nótt. …
Farið var með skipverjana á lögreglustöðina við Hverfisgötu í nótt. Hér sjást lögreglumenn yfirgefa bílana. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert hefur enn komið fram við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur um hvar hana er nú að finna. Lögreglan hefur ákveðið að fara fram á gæsluvarðhald yfir skipverjum af grænlenska togaranum Polar Nanoq. Lögreglan getur ekki gefið upplýsingar á þessari stundu um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir öllum þremur sem handteknir voru í gær. Mennirnir eru grunaðir um að tengjast hvarfi Birnu og verður farið fram á gæsluvarðhald á þeirri forsendu. 

Lögreglan vill ekki gefa upp hvort mennirnir hafi tjáð sig um Birnu, hvort einhverjar vísbendingar hafi fundist um mögulega veru hennar í togaranum við rannsóknina í nótt eða hvað hefur komið fram við rannsókn á rauðri Kia Rio-bifreið sem lagt var hald á í fyrradag og er talin geta tengst málinu.

„Við erum núna að fara yfir gögn næturinnar og meta stöðuna,“ segir Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi í ofbeldisdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is kl. 9.30 í morgun.

- Hafa skipverjarnir við yfirheyrslur tjáð sig eitthvað um Birnu, að hafa hitt hana eða hvar hana er að finna?

„Við getum ekki gefið neitt upp um það núna,“ svarar Einar. 

- Fundust einhverjar vísbendingar í skipinu um að hún hefði verið um borð í því á einhverjum tímapunkti?

„Ég get ekkert tjáð mig um það á þessu stigi,“ segir Einar.

- Hefur eitthvað komið út úr rannsókninni á bílnum sem lagt var hald á?

„Ekkert ennþá sem við getum staðfest.“

- Hefur eitthvað komið fram við rannsóknina um hvar Birna er?

„Nei.“

Leiddir fyrir dómara í dag

Tveir skipverjar af togaranum voru handteknir um borð um kl. 13 í gær. Síðdegis var sá þriðji handtekinn, einnig um borð en þangað komu sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra um hádegisbil í gær.

Skipið kom svo að landi við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi og voru mennirnir þrír fluttir í lögreglubíl á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir voru svo yfirheyrðir fram á morgun.

Yfirheyrslum er nú lokið í bili. Lögreglan mun sem fyrr segir fara fram á gæsluvarðhald og verða þeir því leiddir fyrir héraðsdóm í dag.

Birnu hefur nú verið saknað í 124 klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert