Fara yfir og greina vísbendingar

Björgunarsveitarfólk við störf.
Björgunarsveitarfólk við störf. mbl.is/Eggert

„Verið er að ljúka leitarverkefni uppi á Strandarheiði sem unnið hefur verið að í tvo daga. Þar eru þrjú hundateymi, sex einstaklingar og þrír hundar,“ segir Guðbrandur Örn Arnarsson, aðgerðarstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, í samtali við mbl.is. Leitin hafi gengið hægt fyrir sig vegna aðstæðna og því hafi ekki tekist að ljúka henni fyrir myrkur í gær.

„Það er hvergi verið að leita annars staðar,“ segir Guðbrandur aðspurður. Verið sé að fara yfir vísbendingar og í framhaldi af því verði tekin ákvörðun um frekari leit verði talin ástæða til þess. „Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um framhaldið. Það er í rauninni að öðru leyti bara verið að fara yfir vísbendingar og greina þær og aftur og aftur og aftur.

Spurður frekar um aðstæður á Strandarheiði segir hann að auðveldara sé að finna stærri hluti á svæðinu en minni vegna snjós. En annars sé snjókoma ekki vandamál þar sem um leitarhunda sé að ræða. Ekki sé útilokað að minni hlutir, eins og til dæmis sími, geti fundist. „Myrkrið var hins vegar erfitt fyrir fólkið okkar sem átti erfitt með að fóta sig í hrauninu.“

Verkefnið á Strandarheiði sé einfaldlega vinna við að klára að fylgja eftir einni af fjölmörgum vísbendingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert