Hvarf Birnu: Atburðarásin frá A-Ö

mbl/Grunnkort: Loftmyndir ehf.

Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir skipverjum af grænlenska togaranum Polar Nanoq sem handteknir voru um borð í skipinu í gær. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir að minnsta kosti tveimur þeirra. Mennirnir eru grunaðir um að búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu Brjánsdóttur.

Ekkert hefur spurst til Birnu frá því kl. 5:25 að morgni laugardags eða í meira en 125 klukkustundir.

Leiða þarf tvo hinna handteknu fyrir dómara í síðasta lagi um hádegi í dag. Þá verður sólarhringur liðinn frá því að þeir voru handteknir.

Þriðji maðurinn var handtekinn síðdegis í gær.

Mennirnir eru allir Grænlendingar. Þeir hafa réttarstöðu grunaðra manna þar sem þeir eru grunaðir um að búa yfir upplýsingum er tengjast hvarfi Birnu.

Hér að neðan er farið yfir atburðarásina frá föstudagsmorgni til dagsins í dag, eins og henni hefur verið lýst í fjölmiðlum.

Birna Brjánsdóttir er tvítug.
Birna Brjánsdóttir er tvítug.

Föstu­dagur 13. janú­ar:

Birna Brjáns­dótt­ir kvaddi föður sinn, sem hún býr með í Breiðholti, á föstu­dags­morg­un eins og venju­lega. Um kvöldið fór hún ásamt vin­konu sinni í miðbæ Reykja­vík­ur. Þær spiluðu á Nora Magasin og fóru svo á skemmti­staðinn Húrra við Tryggvagötu til að dansa. Birna sást síðast á eft­ir­lits­mynda­vél við Lauga­veg, und­ir morg­un á laug­ar­dag.

Vinkonurnar voru sam­an á Húrra til kl. 2 um nótt­ina eða þar til Matt­hild­ur ákvað að fara heim. Birna varð eft­ir á staðnum ásamt sam­eig­in­legri vin­konu þeirra.

Laug­ar­dags­morg­unn 14. janú­ar:

Um kl. 5 fór hún ein síns liðs út af Húrra. Birna sést svo í eft­ir­lits­mynda­vél­um ganga ein aust­ur Aust­ur­stræti, Banka­stræti, Skólavörðustíg, Smiðjustíg og inn á Lauga­veg þar sem hún hverf­ur sjón­um um kl. 05:25. 

Á mynd­um úr eft­ir­lits­mynda­vél­um má sjá rauða fólks­bif­reið, sem senni­lega er af gerðinni Kia Rio, ekið vest­ur Lauga­veg á móts við hús nr. 31 kl. 05:25, á sama tíma og Birna var þar á ferð. Lög­regl­an lýsti strax eftir ökumönnum bílsins en það hefur enn engan árangur borið.

Þegar Birna var stödd við Klapp­ar­stíg var sími henn­ar tengd­ur við síma­mast­ur í hús­næði Máls og menn­ing­ar við Lauga­veg. Stuttu síðar teng­dist hann við mast­ur við Lind­ar­götu. Það er talið benda til þess að hún hafi ekki gengið áfram upp Lauga­veg held­ur beygt niður á Hverf­is­götu. Þar eru færri eft­ir­lits­mynda­vél­ar. Skömmu síðar teng­dist sím­inn við mast­ur á gamla Lands­banka­hús­inu á horni Baróns­stígs og Lauga­veg­ar. Nokkr­um mín­út­um síðar teng­dist hann svo við síma­mast­ur við Lista­há­skól­ann á horni Sæ­braut­ar og Laug­ar­nes­veg­ar. Út frá þess­um gögn­um, sem Frétta­blaðið vís­ar til, er talið að þá hafi Birna verið kom­in í öku­tæki á ferð.

Síðasta merki frá síma henn­ar var numið í mastri við Flata­hraun í Hafn­ar­f­irði. Það var um klukk­an sex að morgni laug­ar­dags.

Í kjöl­farið er slökkt hand­virkt á sím­an­um.

Nokkrum mínútum áður sást rauður Kia Rio-bíll á eftirlitsmyndavélum við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Milli kl. 6 og 6:30 sést slíkum bíl svo ekið að togaranum PolarNanoq við Hafnarfjarðarhöfn, aðeins örfáum mínútum eftir að slökkt er á síma Birnu.

Bíll af tegundinni Kia Rio hefur verulega komið við sögu …
Bíll af tegundinni Kia Rio hefur verulega komið við sögu við rannsókn málsins. Ljósmynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Laug­ar­dag­ur 14. janú­ar:

Birna mætti ekki til vinnu í Hag­kaup í Kringl­unni að morgni laug­ar­dags­ins. Var þá haft sam­band við for­eldra henn­ar sem höfðu svo sam­band við lög­regl­una. Lög­regl­an lýsti eft­ir Birnu seint um kvöldið.

Um kl. 21 leysti grænlenski togarinn Polar Nanoq landfestar í Hafnarfjarðarhöfn og sigldi áleiðis til Grænlands. Á þeirri stundu var ekkert vitað um möguleg tengsl hans við hvarfið.

Sunnu­dag­ur 15. janú­ar:

Sjálf­boðaliðar, m.a. vin­ir og ætt­ingj­ar Birnu, hófu strax leit það kvöld og um nótt­ina og all­an næsta dag. Opnuð var Face­book-síða þar sem fólk deildi því hvar það væri að leita. Fólk leitaði í miðbæ Reykja­vík­ur, í Hafnar­f­irði og víðar.

Mánu­dag­ur 16. janú­ar:

Á mánudagsmorgun fékk lög­regl­an aðstoð sérþjálfaðra björg­un­ar­sveit­ar­manna við leit­ina að Birnu. Leitað var meðal ann­ars í 300 metra radíus frá staðnum á Lauga­vegi þar sem hún sást síðast á eft­ir­lits­mynda­vél­um.

Vísbendinga hefur m.a. verið leitað í Hafnarfjarðarhöfn.
Vísbendinga hefur m.a. verið leitað í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Eggert

Seint um kvöldið fundu svo sjálf­boðaliðar sem voru við leit skóp­ar við birgðastöð Atlantsol­íu við Hafn­ar­fjarðar­höfn. Staðfest er að Birna á skóna. Ítar­leg leit var gerð á svæðinu um nóttina en án ár­ang­urs. 

Þriðjudagur, 17. janúar:

Björgunarsveitarmenn héldu áfram leitinni að Birnu, m.a. í Hafnarfirði. Lögreglan lagði hald á bíl, rauðan Kia-Rio í Kópavogi. Rannsókn á bílnum, sem er bílaleigubíll, stendur enn yfir. Fram hefur komið að bíllinn sé mögulega sá sem skipverjar á Polar Nanoq höfðu á leigu um helgina, sá hinn sami og sást á Laugavegi og einnig hugsanlega sá sami og sást á eftirlitsmyndavél við golfskálann.

Síðdegis fékk mbl.is staðfest að skipverjar á Polar Nanoq væru mögulega viðriðnir hvarf hennar þar sem sést hefði til þeirra aka á rauðum bíl að skipinu, eins og fyrr segir. 

Um kvöldið var svo ljóst að lögreglan væri búin að óska eftir aðstoð dansks varðskips, Triton, við aðgerð sem miðaði að því að stöðva för Polar Nanoq og koma því aftur til hafnar á Íslandi. Fjórir rannsóknarlögreglumenn voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð í Triton en þegar aðgerðin hófst var Polar Nanoq komið nálægt strönd Grænlands.

Áhöfnin var samvinnuþýð og sneri skipstjórinn skipinu til Íslands. Hluta leiðarinnar sigldi það í samfloti við Triton.

Aðgerðir gærdagsins og næturinnar:

Lögreglumenn í sérsveit ríkislögreglustjóra fóru um borð í skipið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF um hádegið. Þeir tóku yfir stjórn skipsins og var því svo siglt áleiðis til Hafnarfjarðar.

Þeir handtóku tvo menn um borð. Skipið var þá statt um það bil 90 mílur suðvestur af landinu.

Ástæða aðgerðar lögreglu var sú að við rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu höfðu vaknað grunsemdir um að hinir handteknu hefðu upplýsingar um hvarf hennar.

Mestallan daginn leituðu björgunarsveitarmenn í Hafnarfjarðarhöfn og á Strandarheiði. Sú leit bar engan árangur.

Eftir komu skipsins til hafnar, um kl. 23 í gærkvöldi, voru mennirnir þrír fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir voru yfirheyrðir í alla nótt. Yfirheyrslunum lauk um kl. 8 í morgun.

Í dag verður farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim, að minnsta kosti tveimur.

Uppfært kl. 14.24: Búið er að úrskurða tvo menn af skipinu í tveggja vikna gæsluvarðhald. Þeir neita báðir sök.

Polar Nanoq kom að höfn í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Polar Nanoq kom að höfn í Hafnarfirði í gærkvöldi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert